Hagnaður fjárfestingarbankans Goldman Sachs á öðrum ársfjórðungi jókst um 150% frá sama tímabili í fyrra og nam 3 milljörðum dala. Afkoma bankans var umfram væntingar greinenda sem höfðu spáð því að Goldman myndi hagnast um 2,8 milljarða dala. Hlutabréf Goldman hafa hækkað um meira en 1% í dag.
Uppgjörið gefur til kynna að eftirspurn eftir fjárfestingarbankaþjónustu á Wall Street sé að taka við sér eftir að hafa dregist saman síðustu tvö árin, m.a. vegna vaxtahækkana og verðbólgu, að því er segir í umfjöllun Financial Times.
David Soloman, forstjóri Goldman, sagði bankann vera að sjá auknar hreyfingar á fjármagnsmörkuðum og aukinn áhuga á samruna og yfirtökum. Töluvert fleiri verkefni væru á borðinu hjá bankanum en engu að síður væri eftirspurnin vel undir 10 ára meðaltali.
Tekjur Goldman af fjárfestingarbankastarfsemi jukust um 21% milli ára og námu 1,7 milljörðum dala á fjórðungnum.