Hagnaður bandaríska fjárfestingarbankans á síðasta ársfjórðungi 2022 dróst saman um tvo þriðju frá sama tímabili í fyrra, eða úr 3,9 milljörðum dala í 1,3 milljarða dala. Greiningaraðilar áttu von á að hagnaður bankans yrði nær 2,2 milljörðum dala.

Um er að ræða fimmta fjórðunginn í röð sem afkoma bankans dregst saman. Goldman hefur brugðist við með því að fækka fleiri en 3 þúsund störfum, draga úr kaupaukum og ráðast í aðrar aðgerðir til að draga úr útgjöldum.

Í umfjöllun Financial Times segir að verri afkomu Goldman megi rekja til minni eftirspurnar eftir fjárfestingarbankastarfsemi, m.a. vegna hækkandi vaxtastigs og verri horfa í heimshagkerfinu. Þóknanatekjur af fjárfestingarbankastarfsemi námu 1,87 milljörðum dala á fjórðungnum, sem er 48% lækkun frá sama tímabili í fyrra.

Hlutabréf Goldman Sachs hafa fallið um tæplega 4% frá opnun markaða.