Heimar fasteignafélag högnuðust um 8,2 milljarða króna árið 2024 samanborið við 3,8 milljarða króna hagnað árið áður.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 750 milljónir króna á árinu 2025 og óskað eftir áframhaldandi heimild til endurkaupa eigin bréfa á allt að 10% af hlutafé, að því er kemur fram í uppgjörstilkynningu Heima.

Rekstrartekjur Heima jukust um 7,7% milli ára og námu 14,8 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu jókst um 6,9% og nam 10 milljörðum króna. Matsbreyting fjárfestingareigna nam 8,2 milljörðum í fyrra samanborið við 6,5 milljarða árið áður.

„Reksturinn gengur vel og er í takti við metnaðarfullar áætlanir. Við finnum fyrir mikilli eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði, sérstaklega á kjarnasvæðum Heima,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima.

Hann segir að fjárfestingar Heima í uppfærslum á eignasafni sínu á undanförnum árum samhliða kaupum á nýjum eignum séu grundvöllur 7,9% vaxtar leigutekna á árinu, eða sem samsvarar 1,5% rauntekjuvexti.

Heimar áætla að leigutekjur félagsins á árinu 2025 verði um 14,4-14,6 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir verði 10,3-10,5 milljarðar króna.

Skoða áfram tækifæri til eignasölu

Halldór Benjamín segir að félagið hafi á síðustu misserum skoðað tækifæri til sölu tiltekinna eigna. Heildarfermetrum í eignasafninu hafi fækkað um tæp 2% frá árslokum 2022 með stefnumiðaðri eignasölu.

Á árinu 2024 seldi félagið eignir fyrir 3,3 milljarða þar sem verðið var að meðaltali ríflega 10% yfir bókfærðu virði. Þá hafi endurkaupaáætlanir veriðframkvæmdar með það fyrir augum að skila raunvirði þessara eigna beint til hluthafa í gegnum 1,5 milljarða endurkaupum.

„Stjórnendur munu áfram nýta tækifæri til eignasölu sé hún skynsamleg út frá hagsmunum hluthafa. Virði hlutafjár Heima er enn lægra en bókfært eigið fé félagsins að viðbættri tekjuskattsskuldbindingu og vinna stjórnendur markvisst að því að auka arðsemi félagsins. Heimar eru hluthafavænt félag,“ segir Halldór Benjamín.

„Aukin arðsemi er frumforsenda við ákvarðanir um fjárfestingar og horft er til þess að bætt samkeppnishæfni með uppbyggingu á skilgreindum kjarnasvæðum, sem og tilkoma nýrra tekjustrauma og sterkari hluthafahóps, muni hafa jákvæð áhrif á verðþróun félagsins á markaði.“

Virði fjárfestingaeigna félagsins að frádregnum leigueignum er metið á 188 milljarðar króna. Safnið samanstóð í lok árs af 94 fasteignum sem alls voru um 365 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall er um 97% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi.