Bauhaus á Íslandi hagnaðist um 375 milljónir króna í fyrra samanborið við 293 milljóna hagnað árið 2022. Félagið hyggst ekki greiða út arð vegna síðasta rekstrarárs.

Framlegðin undir „stöðugum ágangi“

Tekjur byggingavöruverslunarinnar, sem opnaði á Íslandi árið 2012, jukust um 3,4% milli ára og námu 4,6 milljörðum króna í fyrra. Rekstrarhagnaður (EBIT) lækkaði hins vegar úr 332 milljónum í 195 milljónir milli ára.

Í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi segir að afkoman árið 2023 hafi einkennst af miklum áhrifum af alþjóðlegri verðbólguþróun og var framlegð félagsins undir „stöðugum ágangi“.

Bætt afkoma eftir skatta skýrist af eignfærslu reiknaðrar tekjuskattsinneignar upp á 141 milljón.

Lykiltölur / Bauhaus slhf.

2023 2022
Tekjur 4.628 4.476
Rekstrarhagnaður 195 332
Afkoma 375 293
Eignir 2.904 2.301
Eigið fé 1.362 988
Ársverk 80 79
- í milljónum króna

Eignir Bauhaus slhf., sem er í eigu þýsku samstæðunnar, voru bókfærðar á 2,9 milljarða króna í árslok 2023 og eigið fé var um 1,4 milljarðar.

Þess má geta að fasteignin sem hýsir verslun Bauhaus að Lambhagavegi 2-4 er í eigu Lambhagavegs fasteignafélags ehf., sem er í eigu sömu aðila og Bauhaus slhf. í gegnum eignarhaldsfélagið Anelytsparken Holding A/S.

Innleiðingin stundum reynt á þolinmæði viðskiptavina

Stjórnin segir að fjárfestingar á síðasta rekstrarári í rafrænum verðmerkingum hafi gert Bauhaus kleift að aðlaga breytingar á söluverði á skilvirkan hátt gagnvart samkeppni og breytts innkaupaverðs.

„Árið 2023 er fyrsta fulla rekstrarárið okkar með nýju fjárhags- og viðskiptakerfi. Innleiðingin hefur verið krefjandi fyrir starfsemina og stundum reynt á þolinmæði viðskiptavina okkar. Við sjáum stöðugar umbætur við höfum nú vettvang til að byggja á til framtíðar.“