Höldur – Bílaleiga Akureyrar hagnaðist um 334 milljónir króna á árinu 2024, samanborið við tæplega 1,1 milljarðs króna hagnað árið áður.
Tekjur bílaleigunnar stóðu nánast í stað milli ára og námu rúmlega 15,2 milljörðum króna í fyrra. Rekstrargjöld jukust um 8,2% og fóru úr tæplega 7,9 milljörðum króna í 8,5 milljarða milli ára. EBITDA-hagnaður félagsins dróst saman um 20,7% milli ára og nam 6,7 milljörðum króna.
„Rekstur félagsins gekk ágætlega á árinu 2024. Undirliggjandi grunnrekstur félagsins er sterkur en aukinn fjármagnskostnaður vegna hás vaxtastigs á Íslandi á árinu 2024 gerði rekstur félagsins þónokkuð meira krefjandi. Útlit er þó fyrir að vextir lækki á árinu 2025 sem mun hafa jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins,“ segir í skýrslu stjórnar.
Félagið segir bílaflotann hafa aukist óverulega á árinu ólíkt árunum á undan en áhersla hafi frekar verið lögð á að bæta nýtingu flotans fremur. Á árinu 2025 verði lögð áhersla á að bæta nýtingu flotans enn frekar.
Félagið keypti bifreiðar fyrir 6,7 milljarða króna árið 2024, samanborið við 10,1 milljarðs kaup árið áður, og seldi bifreiðar fyrir tæplega 5,7 milljarða.
Höldur segir að vegna óhagstæðra skattabreytinga sem leiddu af sér hrun í eftirspurn, lækkaði hlutfall visthæfra bíla í bílaflota félagsins. Um áramót voru tæp 9% af flota félagsins rafmagnsbílar og um 15% tengiltvinnbílar, samanborið við 30% vistvænna bifreiða áramótin á undan.
Eignir bílaleigunnar voru bókfærðar á 33,5 milljarða króna í árslok 2024, en þar af var bílafloti félagsins 26,4 milljarðar. Eigið fé Hölds var um 4,5 milljarðar króna.
Steingrímur Birgisson er forstjóri bílaleigunnar en hann er jafnframt stærsti hluthafi félagsins með 43,5%.