Hagnaður tævanska farsímaframleiðandans HTC dróst saman um 90% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs í samanburði við sama tímabil árið á undan. Nam hagnaðurinn um einum milljarði tævanskra dala, andvirði um 4,4 milljarða íslenskra króna. Á sama tíma árið 2011 nam hagnaðurinn 11 milljörðum dala.
Velta HTC á tímabilinu nam 60 milljörðum tævanskra dala. Í frétt BBC segir að þessi samdráttur skýrist m.a. af því að engin stór vara kom frá fyrirtækinu á fjórða ársfjórðungi, en keppinautarnir Apple og Samsung hafa báðir gefið út mjög vinsæla snjallsíma sem selst hafa í milljónum eintaka.
Síðustu fjóra fjórðunga hefur hagnaður HTC dregist saman og þrátt fyrir að ákveðnar vonir séu bundnar við nýjan síma frá HTC, M7, séu sérfræðingar ekki sannfærðir um að hann muni gera HTC kleyft að ná keppinautunum.