Kínverska fyrirtækið Huawei Technologies hefur greint frá því að félagið hafi tvöfaldað hagnað sinn á síðasta ári. Niðurstöðurnar marka mikla endurkomu fyrir Huawei sem hefur staðið frammi fyrir miklu eftirliti frá bandarískum yfirvöldum.

Tæknirisinn greindi frá því að Huawei hafi hagnast um 12 milljarða dala, sem er 140% aukning miðað við sama tíma í fyrra. Hagnaðurinn er sá mesti síðan fyrirtækið byrjaði að birta sambærilegar tölur árið 2006.

Huawei segir að vöxturinn hafi að mestu verið knúinn af aukinni sölu á rafeindatækni og skýjalausnum. Fyrirtækið kom einnig bandarískum yfirvöldum á óvart þegar það gaf út nýjan snjallsíma, Mate 60 pro.

„Við höfum gengið í gegnum margt undanfarin ár en í gegnum hverja áskorun á eftir annarri höfum við náð að vaxa,“ segir Ken Hu, stjórnarformaður Huawei.