Hagnaður Hvals hf., sem Kristján Loftsson stýrir, nam á síðasta rekstrarári rúmum 1,1 milljarði króna sem er um helmingun frá rekstrarárinu 1. október 2015 til 30. september 2016, þegar hagnaður félagsins nam rúmum 2,2 milljörðum króna.

Tekjur félagsins námu á síðasta ári rétt tæplega 2 milljörðum, þar af tæplega 686 milljónir af eignarhlut félagsins í HB Granda, rúmlega 736 milljónir af Hampiðjunni og 135 milljónir af Nýherja, nú Origo.

Seldar hvalaafurðir skiluðu hins vegar 863 milljónum. Birgðir félagsins af frystum hvalaafurðum eru metnar á tæplega 1,9 milljarða króna.

Hlutabréfaeign dótturfélagsins Vogunar Í HB Granda var færð sem hlutfall af eigin fé félagsins, eða á 16,3 milljarða en eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá var eignarhluturinn seldur á 21,7 milljarða króna 18. apríl síðastliðinn.