Icelandair hagnaðist um 69,2 milljónir dala eða um 9,5 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi. Hagnaður félagsins á þriðja fjórðungi dróst saman um 18% frá sama tímabili í fyrra. Icelandair birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Tekjur félagsins á fjórðungnum drógust saman um 1,2% milli ára og námu 553 milljónum dala eða um 76 milljörðum króna. EBIT-afkoma flugfélagsins lækkaði um fjórðung milli ára og nam 11,4 milljörðum króna.

„Með samstilltu átaki starfsfólks náðum við að nýta sveigjanleika leiðakerfisins til að bregðast við breytingum á eftirspurn til Íslands og setja meiri þunga á markaðinn yfir Atlantshafið sem skilaði góðri sætanýtingu á þriðja ársfjórðungi,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Þessi eftirspurnarbreyting hafði þó áhrif á afkomu félagsins þar sem meðalfargjöld eru lægri á þeim markaði.“

Gerir ráð fyrir „verulegum rekstrarbata“ á næstunni

Hann segir markaðurinn til Íslands þó vera að styrkjast á ný og gerir Icelandair nú ráð fyrir „verulegum rekstrarbata“ á fjórða ársfjórðungi og á næsta ári.

Góður árangur hafi náðist í flugrekstrinum á þriðja fjórðungi með met stundvísi og bættri skilvirkni viðhaldsverkefna sem skilaði sér í lækkun einingakostnaðar þrátt fyrir verðbólgu. Fram kemur að einingakostnaður félagsins hafi lækkað um 2% milli ára.

Bogi segir einnig hafa verið áframhaldandi rekstrarbati í fraktstarfsemi félagsins auk þess að leiguflugið hafi skilaði „mjög góðri afkomu“ á fjórðungnum.

„Í takt við áherslu okkar á að bæta samkeppnishæfni félagsins og þannig renna stoðum undir arðbæran vöxt og árangur félagsins til lengri tíma, hófum við umbreytingarvegferð á fyrri hluta þessa árs sem er þegar farin að skila árangri. Við erum að velta við öllum steinum og höfum sett fram aðgerðaráætlun sem mun bæta arðsemi félagsins og stuðla að því að við náum langtímamarkmiði okkar um 8% EBIT hlutfall.“

Markmiðið sé að þessi vegferð muni skila 70 milljónum dala, eða hátt í 10 milljörðum króna, á ársgrundvelli í lok næsta árs og enn meira á árunum þar á eftir. Fjölmörg hagræðingarverkefni séu þegar í vinnslu.

Þá hyggist Icelandair halda áfram að styrkja tekjumyndun í gegnum fjölbreytta tekjustrauma, meðal annars í gegnum samstarf við önnur flugfélög.