Íslandshótel hf. birtu í dag ársreikning sinn fyrir árið 2024 en bæði tekjur og afkoma félagsins lækkuðu lítillega milli ára.
Bókfært virði eigna jókst töluvert og eiginfjárhlutfall hækkaði. Samhliða staðfestir félagið áframhaldandi áherslu á sjálfbærni og framtíðaruppbyggingu í ferðaþjónustu.
Rekstrartekjur Íslandshótela námu 16,67 milljörðum króna árið 2024 og drógust þar með lítillega saman frá fyrra ári, þegar þær námu 16,78 milljörðum. EBITDA lækkaði úr 4.956 milljónum árið 2023 í 4.416 milljónir árið 2024.
Hagnaður eftir skatta nam 104,8 milljónum króna, samanborið við 498 milljónir árið áður.
Endurmat eykur virði eigna
Þrátt fyrir þessa lækkun jókst bókfært virði eigna félagsins um 3,57 milljarða króna vegna endurmats fasteigna í eigu Íslandshótela.
Í kjölfarið hækkaði eigið fé úr 22,78 milljörðum í 25,75 milljarða og eiginfjárhlutfall fór úr 36,3% í 39,3%.
Alls störfuðu um 647 manns hjá hótelkeðjunni yfir árið, miðað við heilsársstörf.r
Stjórn Íslandshótela leggur til að ekki verði greiddur arður vegna ársins 2024 og að hagnaðurinn verði fluttur yfir á næsta ár.
Þá var tilkynnt í fyrra að félagið hefði ákveðið að hætta við fyrirhugað útboð hlutafjár. Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar um mögulega skráningu á hlutabréfamarkað síðar meir.
Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela, segir reksturinn hafa verið styrktan á árinu þrátt fyrir áskoranir í ytra umhverfi.
„Áskoranir í ytra umhverfi settu sitt mark á rekstur Íslandshótela á síðasta ári en heilt yfir gekk reksturinn vel. Rekstrargrundvöllur félagsins var styrktur, fjárfest var í sjálfbærni og vaxtartækifæri nýtt, enda stefna Íslandshótela vel mótuð og framtíðarsýnin skýr,“ segir Davíð Torfi og bætir við að félagið sé í sterkri stöðu til að halda áfram að byggja sig upp og styðja við vöxt ferðaþjónustunnar á komandi árum.