Samvinnufélagið Kea hagnaðist um 1,4 milljarða króna í fyrra samanborið við 721 milljón króna árið 2023. Eignir Kea, sem er nær skuldlaust, námu 11 milljörðum króna í lok síðasta árs að því er kemur fram í nýbirtri ársskýrslu félagsins.

Í ávarpi stjórnarformanns og framkvæmdastjóra segir að afkoma félagsins í fyrra hafi verið viðunandi miðað við aðstæður og tilgang félagsins.

„Allir eignarflokkar gáfu viðunandi afkomu á árinu. Gangvirðisbreyting óskráðra hlutabréfa ber uppi afkomu ársins eins og oft áður en rétt er að árétta gangvirðisbreyting þessara eigna er reiknaður liður og sem slíkur hverfull. Fjárhagur félagsins er mjög traustur enda félagið nánast skuldlaust.“

Kea keypti fyrir rúmu ári síðan 30% hlut í Ferro Zink hf. og eignaðist félagið þar með að fullu. Jafnframt bætti Kea við sig 21% hlut í Norlandair og á í dag 43% hlut í félagsins.

Samvinnufélagið hóf fyrsta verkefnið sitt í fasteignaþróun í fyrra þegar það keypti lóðina við Viðjulund 1 á Akureyri í samstarfi við Húsheild-Hyrnu en þar stendur til að reisa 2 fjölbýlishús með allt að allt að 50 íbúðum, á næstu árum. Kea segir nokkur önnur verkefni á sviði fasteignaþróunar í skoðun en ljóst sé að fjárhagslegur styrkur félagsins geti nýst í stærri verkefni af þessu tagi á svæðinu.

„Þessar fjárfestingar í fasteignatengdum verkefnum eru hluti af stefnumarkandi áherslum félagsins í því að ráðstafa stórum hluta af efnahagsreikningi sínum í slík verkefni.“

Meðal annarra fjárfestinga Kea er fimmtungshlutur í Kælismiðjunni Frost ehf., 49% hlutur í Sparisjóði Höfðhverfinga, 9,8% hlutur í Sparisjóði Suður-Þingeyinga, 25% hlutur í Stefnu ehf. og 17% hlutur í Marúlfi, fiskvinnslufyrirtæki á Dalvík

Í samræmi við stefnumörkun Kea um að fækka og stækka þau verkefni sem félagið hefur á höndum voru nokkrir eignarhlutar seldir sem félagið hafði átt í nokkuð langan tíma en það voru 5% eignarhlutur í Íslenskum verðbréfum hf. og Norðurböðum ehf, (áður Tækifæri). Jafnframt var seldur 12% eignarhlutur í Slippnum á Akureyri.

„Það er mat okkar að lítil sem engin breyting verði á störfum og umsvifum þeirra félaga sem KEA hefur selt eignarhluti í á síðasta ári.“