Samstæða Kviku banka hagnaðist um 1.256 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 745 milljónir króna á sama tímabili í fyrra, sem samsvarar 69% aukningu. Arðsemi efnislegs eigin fjár (RoTE) fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi var 14,6% á fjórðungnum, að því er kemur fram í uppgjöri Kviku banka.

Aukinn hagnað má hvað helst rekja til þess að rekstur TM batnaði umtalsvert vegna aukinna fjárfestingartekna. Rekstur TM, sem er flokkaður sem eign haldið til sölu, skilaði 480 milljóna hagnaði á fjórðungnum samanborið við 319 milljóna tap á sama tímabili árið áður.

Grunnrekstur Kviku eflist

Rekstrartekjur Kviku banka námu rúmum 4 milljörðum á fjórðungnum, samanborið við 4,3 milljarða á sama tímabili í fyrra. Samdráttinn má einkum rekja til þess að aðrar rekstrartekjur lækkuðu úr 954 milljónum á öðrum fjórðungi 2023 – þar sem fjárfestingatekjur vegna endurmats á eignarhlut í Kerecis námu 899 milljónum – í 217 milljónir á öðrum fjórðungi 2024.

Hreinar vaxtatekjur Kviku jukust um 31% milli ára og námu 2,4 milljörðum á síðasta fjórðungi. Hreinar þóknanatekjur drógust saman um 11% og námu 1,35 milljörðum.

„Rekstur bankans á fjórðungnum gekk mjög vel og það er ánægjulegt að sjá afrakstur þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í á undanförnum fjórðungum skila sér í mjög öflugum grunnrekstri en afkoma áframhaldandi starfsemi, að fjárfestingartekjum undanskildum, eykst um 409 milljónir milli ára,” segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka.

Óbreyttur rekstrarkostnaður eftir fækkun starfsmanna

Rekstrarkostnaður Kviku banka dróst lítillega saman milli ára og nam 2.733 milljónum króna á öðrum fjórðungi.

Ármann segir að Kviku hafi tekist að halda rekstrarkostnaði nánast óbreyttum þrátt fyrir mikla verðbólgu og launahækkanir á tímabilinu. Hann bendir á að starfsmönnum bankans hafi fækkað um tæplega 40 og að dregið hafi verið úr öðrum kostnaði samhliða.