Kvika banki skilaði sterkri afkomu í fyrra samkvæmt nýbirtum ársreikningi bankans nam heildarhagnaður samstæðunnar eftir skatta nam 8.150 milljónum króna, sem er 102% aukning frá árinu 2023 þegar hagnaðurinn nam 4.033 milljónum króna.
Hagnaður fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi nam 5.817 milljónum króna, sem er 93% aukning frá fyrra ári.
Samhliða sterkri afkomu var arðsemi efnislegs eigin fjár (RoTE) 18,8% á árinu, samanborið við 10,2% árið 2023.
Hagnaður á hlut nærri tvöfaldaðist milli ára og nam 1,73 krónum árið 2024, samanborið við 0,84 krónur árið áður.
„Það er ekki annað hægt að segja en að árið 2024 hafi verið umbreytingarár hjá félaginu. Mikill viðsnúningur varð í rekstri Kviku, eftir talsverðar áskoranir síðastliðin tvö ár, og stór skref voru stigin við stefnumörkun og straumlínulögun félagsins með sölu á TM til Landsbankans, sem við vonumst til þess að hljóti endanlegt samþykki á næstu vikum,” segir Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku.
Greiða 25% af hagnaði í arð
Stjórn Kviku hefur ákveðið að greiða 2,5 milljarða í arð til hluthafa bankans á hlut vegna rekstrarársins 2024, sem samsvarar 25% af hagnaði félagsins eftir skatta.
Þá hyggst félagið hefja kaup á eigin bréfum og greiða sérsta arð í kjölfar sölu á dótturfélaginu TM tryggingum, að undangengnu samþykki Seðlabanka Íslands.
Vaxtatekjur jukust milli ára
Hreinar vaxtatekjur námu 9.681 milljón króna og jukust um 21% frá fyrra ári. Hreinar þóknanatekjur hækkuðu einnig og námu 6.137 milljónum króna, sem er aukning um 3,7%.
Aðrar rekstrartekjur jukust um 49% og námu 1.367 milljónum króna. Á sama tíma tókst félaginu að lækka rekstrarkostnað um 1,6% og nam hann 10.608 milljónum króna á árinu.
Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 22,8% í árslok 2024, samanborið við 22,6% árið áður.
Heildareignir námu 355 milljörðum króna í lok árs, sem er 6% aukning frá árslokum 2023. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 15% og námu 163 milljörðum króna í lok ársins.
„Horfur á nýju ári eru prýðilegar. Markaðsaðstæður virðast talsvert betri en fyrir ári síðan, vextir eru byrjaðir að lækka og Kvika stendur frammi fyrir margvíslegum tækifærum, bæði á Íslandi og í Bretlandi. Við söluna á TM gefst okkur bæði tækifæri til þess að greiða umtalsverða fjármuni til hluthafa og nýta það eigið fé sem eftir situr til að stækka lánabækur félagsins. Með stærri lánabók nýtum við innviði okkar betur og aukum stöðugar tekjur án samsvarandi kostnaðaraukningar, auk þess að styrkja enn frekar stoðir bankans með dreifðara eignasafni,“ segir Ármann.
Fjórði fjórðungur styrkti stöðuna verulega
Fjórði ársfjórðungur Kviku var sérstaklega sterkur og á stóran þátt í afkomu ársins.
Hagnaður samstæðunnar eftir skatta nam 3.447 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi, sem er 118% aukning frá sama fjórðungi 2023 þegar hagnaðurinn var 1.578 milljónir króna.
Hagnaður fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi nam 1.601 milljón króna, samanborið við 363 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Það er aukning um 340%.
Hreinar vaxtatekjur á fjórða ársfjórðungi jukust um 7,1% frá fyrra ári og námu 2.498 milljónum króna.
Hreinar þóknanatekjur hækkuðu lítillega, eða um 1,5%, og námu 1.601 milljón króna. Aðrar rekstrartekjur voru hins vegar áberandi hærri en árið áður, eða 567 milljónir króna, sem er 50,3% aukning frá sama tímabili 2023.
Rekstrarkostnaður hækkaði lítillega milli ára, eða um 3%, og nam 2.864 milljónum króna. Vaxtamunur var 3,8%, lítillega lægri en á fjórða ársfjórðungi 2023 þegar hann var 3,9%.