Kvika banki skilaði sterkri af­komu í fyrra sam­kvæmt ný­birtum árs­reikningi bankans nam heildar­hagnaður sam­stæðunnar eftir skatta nam 8.150 milljónum króna, sem er 102% aukning frá árinu 2023 þegar hagnaðurinn nam 4.033 milljónum króna.

Hagnaður fyrir skatta af áfram­haldandi starf­semi nam 5.817 milljónum króna, sem er 93% aukning frá fyrra ári.

Sam­hliða sterkri af­komu var arð­semi efnis­legs eigin fjár (RoTE) 18,8% á árinu, saman­borið við 10,2% árið 2023.

Hagnaður á hlut nærri tvöfaldaðist milli ára og nam 1,73 krónum árið 2024, saman­borið við 0,84 krónur árið áður.

„Það er ekki annað hægt að segja en að árið 2024 hafi verið um­breytingarár hjá félaginu. Mikill viðsnúningur varð í rekstri Kviku, eftir tals­verðar áskoranir síðastliðin tvö ár, og stór skref voru stigin við stefnumörkun og straum­línulögun félagsins með sölu á TM til Lands­bankans, sem við vonumst til þess að hljóti endan­legt samþykki á næstu vikum,” segir Ár­mann Þor­valds­son for­stjóri Kviku.

Greiða 25% af hagnaði í arð

Stjórn Kviku hefur ákveðið að greiða 2,5 milljarða í arð til hlut­hafa bankans á hlut vegna rekstrarársins 2024, sem sam­svarar 25% af hagnaði félagsins eftir skatta.

Þá hyggst félagið hefja kaup á eigin bréfum og greiða sér­sta arð í kjölfar sölu á dóttur­félaginu TM tryggingum, að undan­gengnu samþykki Seðla­banka Ís­lands.

Vaxtatekjur jukust milli ára

Hreinar vaxta­tekjur námu 9.681 milljón króna og jukust um 21% frá fyrra ári. Hreinar þóknana­tekjur hækkuðu einnig og námu 6.137 milljónum króna, sem er aukning um 3,7%.

Aðrar rekstrar­tekjur jukust um 49% og námu 1.367 milljónum króna. Á sama tíma tókst félaginu að lækka rekstrar­kostnað um 1,6% og nam hann 10.608 milljónum króna á árinu.

Eigin­fjár­hlut­fall sam­stæðunnar var 22,8% í árs­lok 2024, saman­borið við 22,6% árið áður.

Heildar­eignir námu 355 milljörðum króna í lok árs, sem er 6% aukning frá árs­lokum 2023. Inn­lán frá við­skipta­vinum jukust um 15% og námu 163 milljörðum króna í lok ársins.

„Horfur á nýju ári eru prýði­legar. Markaðsaðstæður virðast tals­vert betri en fyrir ári síðan, vextir eru byrjaðir að lækka og Kvika stendur frammi fyrir marg­vís­legum tækifærum, bæði á Ís­landi og í Bret­landi. Við söluna á TM gefst okkur bæði tækifæri til þess að greiða um­tals­verða fjár­muni til hlut­hafa og nýta það eigið fé sem eftir situr til að stækka lána­bækur félagsins. Með stærri lána­bók nýtum við inn­viði okkar betur og aukum stöðugar tekjur án sam­svarandi kostnaðar­aukningar, auk þess að styrkja enn frekar stoðir bankans með dreifðara eigna­safni,“ segir Ár­mann.

Fjórði fjórðungur styrkti stöðuna verulega

Fjórði árs­fjórðungur Kviku var sér­stak­lega sterkur og á stóran þátt í afkomu ársins.

Hagnaður sam­stæðunnar eftir skatta nam 3.447 milljónum króna á fjórða árs­fjórðungi, sem er 118% aukning frá sama fjórðungi 2023 þegar hagnaðurinn var 1.578 milljónir króna.

Hagnaður fyrir skatta af áfram­haldandi starf­semi nam 1.601 milljón króna, saman­borið við 363 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Það er aukning um 340%.

Hreinar vaxta­tekjur á fjórða árs­fjórðungi jukust um 7,1% frá fyrra ári og námu 2.498 milljónum króna.

Hreinar þóknana­tekjur hækkuðu lítil­lega, eða um 1,5%, og námu 1.601 milljón króna. Aðrar rekstrar­tekjur voru hins vegar áberandi hærri en árið áður, eða 567 milljónir króna, sem er 50,3% aukning frá sama tíma­bili 2023.

Rekstrar­kostnaður hækkaði lítil­lega milli ára, eða um 3%, og nam 2.864 milljónum króna. Vaxta­munur var 3,8%, lítil­lega lægri en á fjórða árs­fjórðungi 2023 þegar hann var 3,9%.