Lands­bankinn hagnaðist um 7,9 milljarða króna á fyrsta árs­fjórðungi 2025, sem er 11% aukning frá sama tíma­bili í fyrra.

Arð­semi eigin fjár nam 10%, saman­borið við 9,3% á fyrsta fjórðungi 2024, og er í takt við mark­mið bankans um 10–12% arð­semi yfir árið.

Árs­hluta­upp­gjör bankans markast þó af hægari útlána­vexti og auknum rekstrar­kostnaði vegna kaupa bankans á TM tryggingum, sem gekk form­lega í gegn í lok febrúar.

„Upp­gjörið nú er það fyrsta síðan bankinn tók við rekstri TM og sam­vinnan fer vel af stað. Á þessum fyrstu vikum frá því kaupin gengu í gegn hefur mikið áunnist, m.a. hafa þrjú úti­bú bankans og TM verið sam­einuð og lokið var við flókna yfir­færslu á tölvu­kerfum. Við finnum fyrir vel­vild og áhuga á þessum breytingum hjá við­skipta­vinum og munum kynna ýmsar nýjungar í tryggingaþjónustu áður en langt um líður. Rekstur tryggingafélags og banka fer vel saman og býður upp á mögu­leika á betri og fjöl­breyttari fjár­málaþjónustu,“ segir Lilja Björk Einars­dóttir banka­stjóri Lands­bankans.

Tekju­vöxtur í helstu rekstrar­liðum

Hreinar vaxta­tekjur námu 14,8 milljörðum króna og jukust um 2,9% frá fyrra ári.

Hreinar þjónustu­tekjur voru 3,0 milljarðar og hækkuðu um tæp 10%. Þá skilaði vá­trygginga­starf­semi jákvæðri niður­stöðu að fjár­hæð 270 milljónir króna.

Hagnaður af fjár­eignum og fjár­skuldum lækkaði hins vegar á milli ára, aðal­lega vegna lækkunar á gang­virði markaðs­skulda­bréfa.

Hrein virðis­rýrnun fjár­eigna nam 331 milljón króna, sem er tölu­verð lækkun frá fyrra ári þegar hún nam yfir 2,7 milljörðum.

Kostnaður hærri vegna yfir­töku

Kostnaðar­hlut­fall bankans var 38,7% saman­borið við 33,6% á sama tíma­bili í fyrra. Hækkunin skýrist fyrst og fremst af gjald­færðum kostnaði tengdum kaupum á TM tryggingum.

Sé sá kostnaður undan­skilinn lækkar hlut­fallið í 36,6%. Launa­kostnaður hækkaði einnig, að hluta til vegna fjölgunar starfs­fólks eftir sam­runann, en meðal­fjöldi árs­verka jókst úr 824 í 861.

Fyrsta út­gáfa AT1-skulda­bréfa

Í febrúar lauk Lands­bankinn við út­gáfu skulda­bréfa sem telja til eigin­fjárþáttar 1 (e. Additional Tier 1 secu­rities, eða AT1) að fjár­hæð 100 milljónir bandaríkja­dala.

Bréfin voru seld til er­lendra fjár­festa á föstum 8,125% vöxtum og var mikil um­fram­eftir­spurn eftir út­boðinu. Þetta er í fyrsta sinn sem bankinn gefur út slík bréf, sem fela í sér tækifæri til að styrkja eigin­fjár­grunn og fjöl­breyta fjár­mögnun, að sögn bankans.

AT1-bréf eru flokkur víkjandi skulda­bréfa sem teljast til eigin fjár banka og veita fjár­festum hærri ávöxtun en hefðbundin skulda­bréf.

Þau bera þó aukna áhættu: Ef banki lendir í fjár­hags­vanda og eigin­fjár­hlut­fall hans fellur undir ákveðin mörk geta bréfin annaðhvort breyst í hluta­bréf eða verið af­skrifuð. Þannig taka þau á sig tap áður en aðrir skulda­bréfa­eig­endur fá sitt greitt en eftir að eigið fé hefur verið tæmt.

Ásamt AT1-út­gáfunni gaf bankinn einnig út víkjandi for­gangs­bréf að fjár­hæð 500 milljónir norskra króna og 1.300 milljónir sænskra króna.

Mark­miðið með öllum út­gáfunum var að fjár­magna kaup bankans á TM og styrkja fjár­hags­stöðu hans til lengri tíma.

Eignastaða og útlána­vöxtur stöðugur

Heildar­eignir Lands­bankans námu 2.257 milljörðum króna í lok mars, sem er 3,5% hækkun frá áramótum.

Útlán jukust þó aðeins um 0,3% á fyrsta árs­fjórðungi, þar af voru útlán til fyrir­tækja upp um 3,5 milljarða og til ein­stak­linga um 2,2 milljarða. Inn­lán jukust um 1,3% og námu 1.244 milljörðum króna í lok tíma­bilsins.

„Óró­leiki á mörkuðum og óvissa í alþjóðamálum setti mark sitt á fjórðunginn með ýmsum hætti. Hægt hefur á útlána­vexti, bæði hjá ein­stak­lingum og fyrir­tækjum, sem sum hver bíða átekta með fjár­festingar og aðrar ákvarðanir. Við þessar aðstæður er gott að vita til þess að al­mennt sé fjár­hags­staða fyrir­tækja og ein­stak­linga sterk. Í óvissu leynast líka oft tækifæri og á fjórðungnum luku Lands­bréf við fjár­mögnun á nýjum 15 milljarða króna fram­taks­sjóði, Horni V, sem fylgir eftir góðum árangri hinna fjögurra Horns­sjóðanna sem á undan komu,“ segir Lilja.

Yfir 210 milljarðar í arð frá árinu 2013

Á aðal­fundi þann 19. mars samþykkti bankaráð að greiða hlut­höfum arð að fjár­hæð 18,9 milljarðar króna vegna ársins 2024. Arð­greiðslan er tví­skipt, þar sem fyrri hlutinn var greiddur út í mars og sá seinni verður greiddur í septem­ber. Frá árinu 2013 hafa arð­greiðslur bankans þannig numið sam­tals 210,6 milljörðum króna.

Gæði útlána­safnsins eru áfram talin góð og van­skil lítil, þrátt fyrir að vaxta­stig sé enn hátt. Eigin­fjár­hlut­fall bankans stendur í 23,6% og er áfram vel yfir lág­marks­kröfu Fjár­mála­eftir­litsins.

Bankinn vinnur nú að inn­leiðingu á nýrri reglu­gerð ESB (CRR III), sem kveður á um breytta út­reikninga á áhættu­grunni. Gert er ráð fyrir að inn­leiðingin leiði til lækkunar á áhættu­grunninum og þar með hækkunar á eigin­fjár­hlut­falli að óbreyttu.