Landsbankinn hagnaðist um 7,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2025, sem er 11% aukning frá sama tímabili í fyrra.
Arðsemi eigin fjár nam 10%, samanborið við 9,3% á fyrsta fjórðungi 2024, og er í takt við markmið bankans um 10–12% arðsemi yfir árið.
Árshlutauppgjör bankans markast þó af hægari útlánavexti og auknum rekstrarkostnaði vegna kaupa bankans á TM tryggingum, sem gekk formlega í gegn í lok febrúar.
„Uppgjörið nú er það fyrsta síðan bankinn tók við rekstri TM og samvinnan fer vel af stað. Á þessum fyrstu vikum frá því kaupin gengu í gegn hefur mikið áunnist, m.a. hafa þrjú útibú bankans og TM verið sameinuð og lokið var við flókna yfirfærslu á tölvukerfum. Við finnum fyrir velvild og áhuga á þessum breytingum hjá viðskiptavinum og munum kynna ýmsar nýjungar í tryggingaþjónustu áður en langt um líður. Rekstur tryggingafélags og banka fer vel saman og býður upp á möguleika á betri og fjölbreyttari fjármálaþjónustu,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans.
Tekjuvöxtur í helstu rekstrarliðum
Hreinar vaxtatekjur námu 14,8 milljörðum króna og jukust um 2,9% frá fyrra ári.
Hreinar þjónustutekjur voru 3,0 milljarðar og hækkuðu um tæp 10%. Þá skilaði vátryggingastarfsemi jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð 270 milljónir króna.
Hagnaður af fjáreignum og fjárskuldum lækkaði hins vegar á milli ára, aðallega vegna lækkunar á gangvirði markaðsskuldabréfa.
Hrein virðisrýrnun fjáreigna nam 331 milljón króna, sem er töluverð lækkun frá fyrra ári þegar hún nam yfir 2,7 milljörðum.
Kostnaður hærri vegna yfirtöku
Kostnaðarhlutfall bankans var 38,7% samanborið við 33,6% á sama tímabili í fyrra. Hækkunin skýrist fyrst og fremst af gjaldfærðum kostnaði tengdum kaupum á TM tryggingum.
Sé sá kostnaður undanskilinn lækkar hlutfallið í 36,6%. Launakostnaður hækkaði einnig, að hluta til vegna fjölgunar starfsfólks eftir samrunann, en meðalfjöldi ársverka jókst úr 824 í 861.
Fyrsta útgáfa AT1-skuldabréfa
Í febrúar lauk Landsbankinn við útgáfu skuldabréfa sem telja til eiginfjárþáttar 1 (e. Additional Tier 1 securities, eða AT1) að fjárhæð 100 milljónir bandaríkjadala.
Bréfin voru seld til erlendra fjárfesta á föstum 8,125% vöxtum og var mikil umframeftirspurn eftir útboðinu. Þetta er í fyrsta sinn sem bankinn gefur út slík bréf, sem fela í sér tækifæri til að styrkja eiginfjárgrunn og fjölbreyta fjármögnun, að sögn bankans.
AT1-bréf eru flokkur víkjandi skuldabréfa sem teljast til eigin fjár banka og veita fjárfestum hærri ávöxtun en hefðbundin skuldabréf.
Þau bera þó aukna áhættu: Ef banki lendir í fjárhagsvanda og eiginfjárhlutfall hans fellur undir ákveðin mörk geta bréfin annaðhvort breyst í hlutabréf eða verið afskrifuð. Þannig taka þau á sig tap áður en aðrir skuldabréfaeigendur fá sitt greitt en eftir að eigið fé hefur verið tæmt.
Ásamt AT1-útgáfunni gaf bankinn einnig út víkjandi forgangsbréf að fjárhæð 500 milljónir norskra króna og 1.300 milljónir sænskra króna.
Markmiðið með öllum útgáfunum var að fjármagna kaup bankans á TM og styrkja fjárhagsstöðu hans til lengri tíma.
Eignastaða og útlánavöxtur stöðugur
Heildareignir Landsbankans námu 2.257 milljörðum króna í lok mars, sem er 3,5% hækkun frá áramótum.
Útlán jukust þó aðeins um 0,3% á fyrsta ársfjórðungi, þar af voru útlán til fyrirtækja upp um 3,5 milljarða og til einstaklinga um 2,2 milljarða. Innlán jukust um 1,3% og námu 1.244 milljörðum króna í lok tímabilsins.
„Óróleiki á mörkuðum og óvissa í alþjóðamálum setti mark sitt á fjórðunginn með ýmsum hætti. Hægt hefur á útlánavexti, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, sem sum hver bíða átekta með fjárfestingar og aðrar ákvarðanir. Við þessar aðstæður er gott að vita til þess að almennt sé fjárhagsstaða fyrirtækja og einstaklinga sterk. Í óvissu leynast líka oft tækifæri og á fjórðungnum luku Landsbréf við fjármögnun á nýjum 15 milljarða króna framtakssjóði, Horni V, sem fylgir eftir góðum árangri hinna fjögurra Hornssjóðanna sem á undan komu,“ segir Lilja.
Yfir 210 milljarðar í arð frá árinu 2013
Á aðalfundi þann 19. mars samþykkti bankaráð að greiða hluthöfum arð að fjárhæð 18,9 milljarðar króna vegna ársins 2024. Arðgreiðslan er tvískipt, þar sem fyrri hlutinn var greiddur út í mars og sá seinni verður greiddur í september. Frá árinu 2013 hafa arðgreiðslur bankans þannig numið samtals 210,6 milljörðum króna.
Gæði útlánasafnsins eru áfram talin góð og vanskil lítil, þrátt fyrir að vaxtastig sé enn hátt. Eiginfjárhlutfall bankans stendur í 23,6% og er áfram vel yfir lágmarkskröfu Fjármálaeftirlitsins.
Bankinn vinnur nú að innleiðingu á nýrri reglugerð ESB (CRR III), sem kveður á um breytta útreikninga á áhættugrunni. Gert er ráð fyrir að innleiðingin leiði til lækkunar á áhættugrunninum og þar með hækkunar á eiginfjárhlutfalli að óbreyttu.