Lands­virkjun hefur birt árs­upp­gjör sitt fyrir árið 2024 sem sýnir sterkan rekstur þrátt fyrir erfiðar aðstæður á markaði og sögu­lega lakan vatns­bú­skap.

Hagnaður fyrir­tækisins af grunn­rekstri nam 41,5 milljörðum króna, eða tæp­lega 301 milljón bandaríkja­dala, sem er 19,9% lækkun frá fyrra ári.

Sam­kvæmt Lands­virkjun undir­strikar þó árs­reikningurinn áfram­haldandi styrkingu fjár­hags­stöðu fyrir­tækisins, þar sem eigin­fjár­hlut­fall hækkar í 66,2% og skuld­setning er í sögu­legu lág­marki.

Tekju­sam­dráttur vegna vatns­bú­skapar og áhættu­varna

Rekstrar­tekjur Lands­virkjunar námu 560,9 milljónum Bandaríkjadala árið 2024 og drógust saman um 14,7% frá fyrra ári.

Helstu ástæður þessa sam­dráttar sam­kvæmt upp­gjörinu eru:

  • Minni raf­orku­sala vegna sögu­lega lítillar vatns­stöðu í uppi­stöðulónum.
  • Breytt verð­tenging í samningi við stór­notanda.
  • Lækkun inn­leystra áhættu­varna frá fyrra ári.

Þrátt fyrir þetta er hagnaður fyrir­tækisins áfram sterk stað­festing á rekstrar­legu bol­magni þess.

Nettó skuldir lækkuðu um 4,4% og hand­bært fé frá rekstri nam 270 milljónum dala, þó að það hafi dregist saman um 35% frá fyrra ári.

Aukin fjár­festing í orkuöflun

Eitt stærsta verk­efni ársins var upp­haf fram­kvæmda við Búr­fells­lund (120 MW) og Hvamms­virkjun (95 MW) eftir ítrekaðar tafir í leyfis­veitinga­ferlinu.

Lands­virkjun undir­strikar mikilvægi þess að koma þessum verk­efnum hratt í fram­kvæmd til að mæta orku­skiptum og vexti sam­félagsins.

Á árinu 2025 stendur einnig til að hefja fram­kvæmdir við stækkun Þeista­reykja- og Sigöldustöðvar. En fyrir­tækið hefur aldrei áður unnið að fernum ný­fram­kvæmdum samtímis með þremur ólíkum orku­gjöfum.

Áform um háa arð­greiðslu til ríkisins

Fjár­hags­staða Lands­virkjunar hefur styrkst veru­lega undan­farin ár og leggur stjórn fyrir­tækisins til að 25 milljarðar króna verði greiddir í arð til ríkisins í ár.

Með þessari greiðslu verður saman­lagður arður til ríkisins vegna rekstraráranna 2021–2024 um 90 milljarðar króna.

„Rekstur Lands­virkjunar gekk áfram vel á árinu 2024, þótt af­koman hafi ekki jafnast á við met­á 2023. Aðstæður voru krefjandi á árinu, vatns­bú­skapur sögu­lega lakur, sem leiddi til þess að tekjur drógust saman vegna minni raf­orkusölu. Þá urðu breytingar á verð­tengingu í samningi við stór­notanda, auk þess sem inn­leystar áhættu­varnir lækkuðu frá fyrra ári. Af­koman var því vel ásættan­leg miðað við aðstæður. Fjár­hags­leg staða fyrir­tækisins hefur aldrei verið betri og þar með bol­magn þess til þess að setja þann kraft í orkuöflun sem er nauð­syn­legur til að mæta þörfum ís­lensks sam­félags,” segir Hörður.

Lands­virkjun stefnir á áfram­haldandi fjár­festingar í orkuöflun og treystir á að tafir á fram­kvæmdum verði lág­markaðar.

Þrátt fyrir sveiflur í tekjum og áskoranir í vatns­bú­skap er fyrir­tækið fjár­hags­lega vel statt og í stakk búið að mæta orkuþörf sam­félagsins á komandi árum.