Afkoma rafbílaframleiðandinn Tesla dróst saman á milli fjórðunga í fyrsta sinn í meira en ár en var engu að síður yfir væntingum greiningaraðila. Fjöldi afhentra bíla dróst saman, m.a vegna tímabundinnar lokunar verksmiðju félagsins í Sjanghæ í vor. Hlutabréf Tesla hafa hækkað um meira en 6% í dag. WSJ greinir frá.

Tesla hagnaðist um 2,3 milljarða dala á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 316 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 3,3 milljarða dala á fyrstu þremur mánuðum ársins. Greiningaraðilar á Wall Street áttu von á að hagnaður Tesla yrði nær 1,9 milljörðum dala.

„Þrátt fyrir allar þessar áskoranir, þá var þetta einn af sterkustu fjórðungum í okkar sögu,“ sagði Elon Musk á uppgjörsfundi. Hann sagði að rafbílaframleiðandinn hafi glímt við „aðfangakeðju helvíti“ í nokkur ár.

Sala Tesla dróst saman um 10% frá fyrsta fjórðungi og nam 16,9 milljörðum dala frá apríl-júní. Fjármálastjórinn Zach Kirkhorn sagði að Tesla stefni áfram að 50% söluvexti í ár en viðurkenndi að það gæti reynst erfitt.