Marel skilaði 2,1 milljónar evra hagnaði, eða sem nemur 315 milljónum króna, á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 3,1 milljónar evra hagnað á sama tímabili í fyrra. Tap af rekstri Marels á fyrstu sex mánuðum ársins. Marel birti uppgjör eftir lokun markaða í dag.

Tekjur Marels á öðrum fjórðungi drógust saman um 1,7% milli ára og námu 415,2 milljónum evra eða um 62,2 milljörðum króna.

Marel skilaði 2,1 milljónar evra hagnaði, eða sem nemur 315 milljónum króna, á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 3,1 milljónar evra hagnað á sama tímabili í fyrra. Tap af rekstri Marels á fyrstu sex mánuðum ársins. Marel birti uppgjör eftir lokun markaða í dag.

Tekjur Marels á öðrum fjórðungi drógust saman um 1,7% milli ára og námu 415,2 milljónum evra eða um 62,2 milljörðum króna.

Aðlöguð EBIT-afkoma félagsins jókst hins vegar um 11,5% milli ára og nam 37,7 milljónum evra eða um 5,7 milljörðum króna. EBIT-framlegð félagsins, þ.e. EBIT-afkoman sem hlutfall af tekjum, var 9,1% á öðrum fjórðungi, samanborið við 7,9% á fyrsta fjórðungi og 8,0% á öðrum fjórðungi 2023.

„Það er ánægjulegt að sjá bætta rekstrarframlegð á milli ársfjórðunga í kjölfar þeirra aðgerða sem við höfum farið í til að bæta reksturinn,“ segir Árni Sigurðsson, forstjóri Marels.

„Rekstrarumhverfið er áfram krefjandi og litað af óvissu sem endurspeglast í lægri mótteknum pöntunum. Við erum hins vegar viss um að rekstrarskilyrði viðskiptavina okkar fari batnandi sem muni skila sér í auknum pöntunum á seinni helmingi ársins, sérstaklega undir lok þessa árs og inn á það næsta.“

Í afkomutilkynningu Marels segir að krefjandi markaðsaðstæður, m.a. vegna spennu á alþjóðavettvangi, verðbólgu og hárra vaxta, skapi áframhaldandi óvissu til skemmri tíma. Þetta endurspeglist í lægri mótteknum pöntunum á fyrri hluta árs sem voru undir væntingum.

„Búist er við aukningu í mótteknum pöntunum á síðari árshelmingi sem byggist á batnandi horfum og batamerkjum í rekstrarumhverfi viðskiptavina. Þörf er á frekari vexti pantanabókar til að styðja við tekjuvöxt og bætta rekstrarafkomu.“

Skuldahlutfall Marels hækkaði úr 3,8x í 3,9x á fjórðungnum sem félagið rekur aðallega til óhagstæðrar þróunar hreinna veltufjármuna.

Færa horfur fyrir árið niður – spá tekjusamdrætti í ár

Árni segir að í ljósi þess hve fyrri hluti árs fór rólega af stað þá geri félagið nú ráð fyrir hóflegum samdrætti tekna á yfirstandandi rekstrarári. Til samanburðar gerði Marel áður ráð fyrir smávægilegum tekjuvexti í ár.

Þá hefur Marel fært niður horfur varðandi framlegð. Félagið gerir nú ráð fyrir að EBITDA-framlegð ársins verði 13-14% (áður, 14-15%) og EBIT framlegð 9-10% (áður 10-11%).

„Til lengri tíma litið og eftir því sem horfur fara batnandi, er ég sannfærður um að leiðandi staða Marel á þeim vaxtarmörkuðum sem félagið starfar og skýr stefna félagsins muni tryggja að markmið okkar til meðallangs tíma náist,“ segir Árni.

Væntir þess að samruni við JBT gangi í gegn fyrir árslok

Árni minnist á yfirtökutilboð í alla hluti í Marel sem John Bean Technology (JBT) lagði fram í síðasta mánuði. Tilboðsfrestur er til 2. september næstkomandi.

„Við væntum þess að viðskiptin gangi í gegn fyrir lok árs og horfum björtum augum á sameiningu félaganna í því augnamiði að bæta þjónustu við viðskiptavini með hagsmuni allra haghafa að leiðarljósi,“ segir Árni.