Ölgerðin hagnaðist um 568 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi fjárhagsárs félagsins sem lauk 30. nóvember síðastliðinn. Hagnaðurinn dróst saman um tæplega 22% frá sama tímabili í fyrra þegar félagið hagnaðist um 728 milljónir.
Ölgerðin birti árshlutauppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Vörusala Ölgerðarinnar jókst um 0,9% milli ára og nam 11,3 milljörðum króna á fjórðungnum. Félagið segir að betri sala til hótela og veitingastaða, fyrirtækja og ÁTVR hafi stutt við aukna vörusölu á fjórðungnum.
Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) dróst saman um 13,6% milli ára og nam 3,9 milljörðum. Afkomuspá fyrir fjárhagsárið 2024 er óbreytt og gerir ráð fyrir EBITDA á bilinu 4,9 – 5,3 milljarðar króna.
„Ölgerðin heldur áfram að renna styrkum stoðum undir rekstur sinn, þó vissulega finnum við fyrir krefjandi ytri aðstæðum, eins og flest fyrirtæki,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Í tilkynningu Ölgerðarinnar segir að áfram hafi gengið vel að halda aftur af ýmsum kostnaðarþáttum á ársfjórðungnum. Áréttað er að í samanburði milli ára þurfi að hafa í huga kostnað vegna markaðssetningar Collab erlendis, sem hafði 94 milljóna króna áhrif á EBITDA-hagnað tímabilsins.
Annar rekstrarkostnaður Ölgerðarinnar jókst um 10,8% milli ára og nam 2.368 milljónum króna á fjórðungnum.