Ölgerðin hagnaðist um 887 milljónir króna á öðrum fjórðungi fjárhagsársins, frá júní til ágúst síðastliðins, samanborið við 714 milljónir á sama tímabili árið áður. Vörusala samstæðu Ölgerðarinnar jókst um 20,4% á milli ára og nam 10,6 milljörðum króna.

„Sala á bjórum Ölgerðarinnar heldur áfram að aukast. Hlutdeild í bjórsölu ÁTVR hefur aukist á tímabilinu og sala til veitingahúsa hefur aukist um rúmlega 50%. Gull Lite er nú söluhæsti bjór landsins og eitt af fimm verðmætustu vörumerkja fyrirtækisins,“ segir í uppgjörtilkynningu Ölgerðarinnar. Auk þess hafi sala til hótela aukist.

Félagið bætir við að reksturinn í síðasta mánuði var í samræmi við væntingar stjórnenda. Vörusala hækkaði um 18% og launakostnaður um 10% frá september 2021.

Eignir Ölgerðarinnar voru bókfærðar á 25,7 milljarða í lok ágúst. Eigið fé jókst úr 7,6 milljörðum í 9,1 milljarða frá lokum febrúar til loka ágúst.

„Við erum afar sátt við niðurstöðu tímabilsins. Það er ánægjulegt að sjá hvað sala til hótela og veitingastaða hefur aukist og greinilegt er að ferðamannaiðnaðurinn er að hafa jákvæð áhrif víða í samfélaginu. Aukin vörusala tímabilsins segir líka sitt um styrkleika samstæðunnar hvað varðar úrval og góða þjónustu. Þá er ljóst að Íslendingar kunna að meta þá gæðabjóra sem Ölgerðin býður upp á eins og sterk staða bjóra Ölgerðarinnar hjá ÁTVR sýnir,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

Framleiðsla á vatni tvöfaldast á tveimur árum

Ölgerðin, sem sér um framleiðslu fyrir hlutdeildarfélag sitt Iceland Spring, segir að framleiðsla á vatni til útflutnings haldi áfram að aukast og hefur nú tvöfaldast frá sama tímabili árið 2020.

„Framleiðslugeta vatnslínu verður brátt fullnýtt og nauðsynlegt að huga að afkastaaukningu hvort sem það verður í nafni Ölgerðarinnar eða Iceland Spring.“

Aðflutningsgjöld hækki um 153 milljónir

Í árshlutareikningnum segir að félaginu hafi borist bréf frá tollgæslu Skattsins þann 3. október síðastliðinn vegna fyrirhugaðar endurákvörðunar aðflutningsgjalda. Til skoðunar er tímabilið frá janúar 2017.

Verði aðflutningsgjöld endurákvörðuð á þeim grunni sem tilgreindur er í bréfinu mun fjárhæð þeirra hækka sem nemur 153 milljónum króna að viðbættu álagi og dráttarvöxtum.

Ölgerðin áætlar að áhrifin á rekstrarhagnað fyrir afskriftir (EBITDA) á yfirstandandi fjárhagsári séu neikvæð um 25 milljónir króna og munu koma fram á seinni hluta fjárhagsársins. Félagið hefur ekki fært áhrif fyrirhugaðar endurákvörðunnar í árshlutareikninginn vegna óvissu um niðurstöðu.