Orkuveita Reykjavíkur (OR) skilaði 8,4 milljarða króna hagnaði eftir skatta árið 2022 sem er um 30% minna en árið 2021 þegar félagið hagnaðist um 12 milljarða. Stjórn OR leggur til við aðalfund allt að 5,5 milljarða króna arðgreiðslu vegna síðasta árs, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.
Rekstrartekjur Orkuveitunnar jukust um 9,8% á milli ára og námu 57,0 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 51,9 milljarða árið 2021. Í afkomutilkynningu OR segir að hærra álverð skýri einkum tekjuvöxtinn. Rekstrargjöld jukust um 15,4%, eða úr 18,4 í 21,2 milljarða.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 35,7 milljörðum í fyrra sem er 6,7% aukning frá fyrra ári.
Fjármunatekjur neikvæðar um 11 milljarða
Verri afkomu Orkuveitunnar eftir skatta má rekja til þess að fjármunatekjur samstæðunnar voru neikvæðar um 11,3 milljarða í fyrra. Til samanburðar voru þær neikvæðar um 4,1 milljarð árið 2021.
„Verðbólga hefur talsverð áhrif á rekstrarkostnað samstæðu OR. Það bítur talsvert þegar verðbólga eykst stórlega eftir langt lágvaxtaskeið heimsfaraldursins,“ segir í afkomutilkynningunni.
Eignir Orkuveitunnar voru bókfærðar á 451 milljarð í árslok 2022. Eigið fé var um 146 milljarðar og eiginfjárhlutfallið var um 54,7%. Orkuveitan er í 93,5% eigu Reykjavíkurborgar, 5,5% eigu Akraneskaupstaðar og 0,9% eigu Borgarbyggðar.
Sævar Frey Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, var nýlega ráðinn forstjóri Orkuveitunnar. Sævar Freyr tekur við stöðunni af Bjarna Bjarnasyni þann 1. apríl næstkomandi.