Hagnaður námufyrirtækisins Rio Tinto nam 8,9 milljörðum dala á fyrri hluta árs 2022 og dróst saman um 29% á milli ára. Minni hagnaður fyrirtækisins má rekja til verðlækkana á hrávörum á borð við járngrýti. Þetta kemur fram í árshlutareikningi fyrirtækisins.
Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir nam 15,6 milljörðum dala sem er 26% minna en á sama tímabili árið áður. Tekjur félagsins námu tæpum 30 milljörðum dala á árinu, sem er 10% minna en árið áður.
Félagið mun greiða 4,3 milljarða dali, eða um 600 milljarða króna, í arð til hluthafa, eða sem nemur tæplega 50% af hagnaðinum, að því er kemur fram í greinFinancial Times. Þótt arðgreiðslan sé há í sögulegu samhengi er hún töluvert lægri en arðgreiðsla félagsins upp á 9,1 milljarða dala á sama tíma í fyrra. Arðgreiðsluhlutfall upp á 50% er auk þess nokkuð lægra en það 60-70% arðgreiðsluhlutfall sem sérfræðingar spáðu fyrir um.
Jakob Stausholm, forstjóri Rio, sagði hins vegar í tilkynningu að um væri að ræða mjög háa upphæð. Verð á járngrýti hefði að auki lækkað mikið og bendir Jakob á að það hafi verið tvisvar sinnum hærra á sama tíma fyrir ári síðan.
Sjá einnig: Rio Tinto greiðir út tvö þúsund milljarða
Í faraldrinum nutu námufyrirtæki góðs af verðhækkunum á hrávörum. Hluthafar slíkra félaga fengu greiddar háar fjárhæðir í arð. Þannig greiddi Rio 16,8 milljarða dali í arð fyrir rekstrarárið 2021.
Verð á járngrýti hækkaði mikið framan af árinu 2021 og var hæst komið upp í 230 dali tonnið. Síðan þá hefur verðið fallið mikið og stendur nú í um 110 dölum á tonnið.
Framleiðsla á járngrýti skilaði Rio rúmlega 10 milljörðum dala í rekstrarhagnað á fyrri hluta árs 2022. Til samanburðar skilaði framleiðslan 16 milljörðum dala í rekstrarhagnað á sama tíma árið áður.