Tryggingafélagið Sjóvá hagnaðist um 2,7 milljarða á síðasta ári miðað við 9,6 milljarða árið 2021 en það ár var óvenjugott í rekstri tryggingarfélaga.
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir afkomuna í fyrra „endurspegla sterkan grunnrekstur og vel ásættanlega afkomu af fjárfestingastarfsemi miðað við aðstæður“ á mörkuðum. „Jákvæð afkoma skýrist fyrst og fremst af sölu og gengisbreytingu óskráðra hlutabréfa,“ segir Hermann um fjárfestingarstarfsemi félagsins í fyrra.
Hagnaður Sjóvá í fyrra af vátryggingarstarfsemi fyrir skatta var 1,93 milljarðar króna miðað við 2,52 milljarða árið áður. Þá var hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta upp á 1,23 milljarða miðað við 7,83 milljarða hagnað af þeim hluta rekstrarins árið 2021. Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu var 3,5% í fyrra miðað við 18,5% árið 2021.
Samsett hlutfall félagsins var 95,8% á síðasta ári en 90,9% árið 2021. Afkomuspá ársins 2023 gera ráð fyrir að hagnaður af vátryggingarstarfsemi fyrir skatta verði 2,1 til 2,6 milljarðar króna og samsett hlutfall 94-96%. Sjóvá ætlar ekki að birta horfur fyrir afkomu af fjárfestingastarfsemi vegna óvissi á því sviði en áætlanir félagsins gera ráð fyrir að ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu nemi 8,5% á ári til lengri tíma miðað við núverandi vaxtastig og fjárfestingarstefnu án vaxtatekna af viðskiptakröfum.
Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 1,9 milljarðar í arð vegna starfsemi síðasta árs en arðgreiðslustefna félagsins miðar við að greiða að lágmarki 50% af hagnaði hvers ár til hluthafa. Auk þess hefur félagið hafið endurkaupaáætlun þar sem félagið kaupa að hámarki eigin hluti fyrir 250 milljónir króna fram til september næstkomandi.