Hagnaður Skaga samstæðunnar eftir skatta nam 273 milljónum króna á fyrri helmingi árs sem er lækkun úr 1.072 milljónum á sama tímabili í fyrra.
Mun það vera rúmlega 74% samdráttur á milli ára en í árshlutauppgjöri segir að krefjandi markaðsumhverfi liti afkomu samstæðunnar.
Að mati samstæðunnar er ávöxtun fjáreigna viðunandi en lægri ávöxtun af hlutabréfum skýrir helst lægri fjárfestingartekjur milli ára og hefur áhrif á hagnað samstæðunnar.
Tekjuvöxtur í tryggingarstarfseminni heldur þó áfram með um 10,4% milli ára samhliða lækkandi kostnaðarhlutfalli.
Afkoma af vátryggingasamningum nam 453 milljónum króna en var í 470 milljón króna tapi í fyrra sem er um 196% betri afkoma milli ára.
Samsetta hlutfallið, sem sýnir hvernig rekstur vátryggingahluta tryggingafélaga gengur, nam 96,8% á fyrri helmingi árs en var 103,7% í fyrra.
Ef hlutfallið er 100% duga iðgjöld tiltekins tímabils fyrir öllum gjöldum sama tímabils en ef hlutfallið er yfir 100% standa iðgjöld ekki undir kostnaði og tap er af vátryggingarekstrinum. Eðli málsins samkvæmt setja tryggingafélög sér því markmið um að hlutfallið sé undir 100%, því þá er afgangur af vátryggingarekstrinum.
„Mikill rekstrarbati hefur átt sér stað í tryggingastarfseminni. Þessi kraftmikli viðsnúningur í átt að arðbærum grunnrekstri, sem markvisst hefur verið stefnt að, er nú að raungerast. Iðgjaldavöxtur nemur rúmum 10,4% milli ára. Þetta eru fleiri nýir viðskiptavinir ásamt aukinni sölu trygginga til núverandi viðskiptavina. Tekjuvöxtur í líf- og sjúkdómatryggingum nemur um 15,5% milli ára. Afkoma af vátryggingasamningum var jákvæð um 453 milljónir en á sama tíma í fyrra var afkoman neikvæð um 470 milljónir. Þessi ríflega 900 milljóna króna viðsnúningur milli ára er afrakstur breyttra áherslna þar sem sölufyrirkomulagi félagsins var umbylt og fjárfest í nýjum stafrænum sölurásum. Aukin áhersla hefur verið sett á þjónustu á landsbyggðinni og opnuðum við nýlega nýja þjónustuskrifstofu á Reykjanesi, sem hefur verið afar vel tekið,” segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Skagasamstæðunnar, í uppgjöri.
Að hans mati gekk rekstur samstæðunnar á fyrri helmingi ársins að mörgu leyti vel, sérstaklega í tryggingastarfseminni.
Haraldur segir að fjármálastarfsemin hafi farið vel af stað í upphafi árs en krefjandi markaðsaðstæður höfðu neikvæð áhrif á öðrum ársfjórðungi og litaði það afkomu í fjármála- og fjárfestingarstarfsemi okkar á tímabilinu.
Hreinar tekjur Skaga af fjárfestingum námu 519 milljónum á fyrri helmingi árs en voru tæpir 1,6 milljarðar á fyrri helmingi árs 2023.
Afkoma af fjármálastarfsemi var neikvæð um 119 milljónir fyrir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins. Fjárfestingartekjur námu 1,3 milljörðum, sem samsvarar um 3% nafnávöxtun en fjárfestingartekjurnar voru um 2,5 milljarðar á sama tímabili í fyrra.
„Ávöxtun eignasafns heldur áfram að vera umfram viðmið. Skuldabréf skiluðu 1.242 milljónum á tímabilinu eða rúmlega 4,1% ávöxtun. Hlutabréf í heild lækkuðu um 27 milljónir á tímabilinu. Gengi Controlant var lækkað á öðrum ársfjórðungi úr 105 krónum í 80 krónur á hlut eða um 24% sem fól í sér 208 milljóna lækkun á virði hlutarins. Óskráð hlutabréf hækkuðu annars um 120 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins, sem má að mestu rekja til hækkana á virði framtakssjóða,“ segir Haraldur.
„Lægri ávöxtun af hlutabréfum skýrir þó lægri fjárfestingartekjur milli ára og hefur það áhrif á hagnað samstæðunnar. Við höldum áfram að undirbúa komu Íslenskra verðbréfa hf. í samstæðu Skaga, sem mun styðja enn frekar við vöxt tekna og auka eignir í stýringu. Hagnaður eftir skatta nam 273 milljónum fyrir tímabilið. Við höldum ótrauð áfram að vinna að rekstrarmarkmiðum Skaga – og horfur ársins eru óbreyttar,“ segir Haraldur.
Haraldur segir jafnframt að fjármálastarfsemin, sem samanstendur af rekstri Fossa og SIV, hafi farið vel af stað en afkoman hafi þó verið neikvæð um 119 milljónir fyrir skatta.
„Mikilvægir áfangar náðust á tímabilinu því hlutdeild bankans á skuldabréfamarkaði hélt áfram að aukast, vaxtamunur bankans varð stöðugri og lánabók bankans hélt áfram að stækka í takt við væntingar. Frá áramótum hefur efnahagur bankans, sem samanstendur af verðbréfafjármögnun og öðrum útlánum, vaxið um 25%. Bankinn gaf nýlega út sitt fyrsta skráða skuldabréf fyrir 1,5 milljarð, til 18 mánaða, með 150 punkta álagi á eins mánaðar REIBOR. Þetta er mikilvægt skref fyrir Fossa fjárfestingarbanka vegna þess að útgáfan lengir í fjármögnun bankans á samkeppnishæfum kjörum og styður jafnframt við áframhaldandi vöxt bankans.
Horfur Skaga fyrir rekstrarárið eru óbreyttar frá upphafi árs. Enn er horft til þess að samsett hlutfall verði á bilinu 94% – 97% og að hreinar fjármálatekjur nemi á bilinu 1.900 – 2.600 milljónum. Áætluð ávöxtun fjárfestingareigna á árinu er 11% en segir í uppgjörinu að það sé byggt á forsendum miðað við vaxtastig í upphafi árs og fjárfestingarstefnu.