Fjár­festinga­fé­lagið Skel hagnaðist um 2,1 milljarð á fyrstu sex mánuðum ársins. Mun það vera meira en helmingi minna en á sama tíma­bili í fyrra þegar fjár­festinga­fé­lagið hagnaðist um 4,9 milljarða. Þetta kemur fram í nýbirtu árs­hluta­upp­gjöri. Ástæðan fyrir minni hagnaði milli ára er að á sama tímabili í fyrra voru bókfærðar einskiptistekjur upp á sex milljarða vegna sölu fasteigna.

Eignir fé­lagsins námu 42,1 milljarði króna á meðan eigið fé nam 34,9 milljörðum sem sam­svarar 18,1 krónu á hvern út­gefinn hlut. Eigin­fjár­hlut­fall var 83,1%.

Fjár­festinga­tekjur fé­lagsins drógust einnig saman á milli ára og námu 2.424 milljónum í ár í saman­burði við 6.849 milljónir á fyrri árs­helming síðasta árs.

Arð­semi eigin fjár á árs­grund­velli var 12,5% á fyrri árs­helmingi í saman­burði við 30% á tíma­bilinu árið 2022. Hagnaður á hlut fer úr 2,27 krónum á fyrri árs­helming í fyrra niður í 1,06 krónur í ár.

Rekstur heilt yfir í samræmi eða betri en áætlanir

Hand­bært fé frá rekstri var nei­kvætt um 42 milljónir en var já­kvætt um tæpa 4,5 milljarða í fyrra. Hand­bært fé í lok tíma­bilsins nam 3.9 milljörðum króna og eign í ríkis­skulda­bréfum rúm­lega 1 milljarður.

„Á fyrri helmingi ársins saman­stóðu rekstrar­fé­lög SKEL af Skeljungi ehf., Kletti– sölu og þjónustu ehf., sam­stæðu Orkunnar, þ. e. Orkan IS ehf., Lyfja­val ehf., og Löður ehf. sem og Gall­on ehf. Rekstur þessara fé­laga var heilt yfir í sam­ræmi við, eða betri en á­ætlanir sem kynntar voru í árs­upp­gjöri gerðu ráð fyrir. Helsta já­kvæða frá­vikið í rekstri fé­laganna er rekstur Orkunnar sem hefur gengið vonum framar það sem af er ári,“ segir Ás­geir Helgi Reyk­fjörð Gylfa­son for­stjóri Skel í upp­gjörinu.

Verslunarrekstur Orkunnar og Lyfjaval seld til Heimkaupa

Helstu breytingar á eigna­safninu var 3,5 milljarða króna fjár­festing Horns IV í Styrk­ási, móður­fé­lagi Skeljungs og Kletts. Skel seldi einnig allt hluta­fé í Sp/f Orku­fé­laginu en salan kláraðist endan­lega í lok júlí.

Verslunar­rekstur Orkunnar og Lyfja­val voru seld til Heim­kaupa og var Gréta María Grétars­dóttir ráðin for­stjóri fé­lagsins.

„Nýir stjórn­endur hafa náð góðum tökum á rekstrinum undan­farin ár með lækkun rekstrar­kostnaðar og fækkun stöðu­gilda. Fé­lagið rekur 72 Orku­stöðvar og 15 þvotta­stöðvar Löðurs með 38 stöðu­gildum. Við­skipta­vinir fé­lagsins hafa tekið mjög vel í þær tækni­nýjungar sem fé­lagið hefur kynnt. Á fyrri árs­helmingi nam EBITDA, án IFRS 16 á­hrifa, 1.013 m.kr. hjá Orkunni og við búumst nú við að hún verði um 1.650 m.kr. á árinu. Við verð­metum Orkuna á 5.714 m.kr., sem jafn­gildir EV/EBITDA 5,0x í bókum okkar í með­fylgjandi árs­hluta­reikningi. Við erum sér­stak­lega á­nægð með að hafa ný­verið gert sam­komu­lag við Horn IV slhf., sem er fram­taks­sjóður í stýringu Lands­bréfa, um þátt­töku í hluta­fjár­aukningu í Styrk­ási ehf.“ segir Ás­geir Helgi í upp­gjörinu.

Sam­kvæmt því verður Styrk­ás ehf. eignar­halds­fé­lag um allt hluta­fé í Skeljungi ehf. og Kletti – sölu og þjónustu ehf.

Eignar­hlutur SKEL í Kalda­lóni hf. lækkaði í virði um 302 m. kr. á fyrri hluta ársins.

„Norvik ehf. hefur jafn­framt skrifað sig fyrir 500 m. kr. af nýju hluta­fé. Við teljum að það sé rými fyrir á­skoranda á smá­sölu­markaði og hlökkum til að kynna fé­lagið betur í vetur. Eignar­hlutur SKEL í Kalda­lóni hf. lækkaði í virði um 302 m. kr. á fyrri hluta ársins. Sem stærsti hlut­hafi fé­lagsins hefur SKEL gegnt stefnu­markandi hlut­verki við upp­byggingu á Kalda­lóni hf. Við teljum að á­herslur fé­lagsins um ein­faldan rekstur, ein­fald­leika í eigna­safni og lág­mörkun kostnaðar verði fé­laginu far­sælar til lengri tíma. Ný­lega til­kynnti Kalda­lón hf. að það hafi lokið við út­gáfu ramma fyrir skulda­skjöl og ætti fé­lagið því að geta sótt sér markaðs­fjár­mögnun þegar það metur það hag­fellt. Í sömu til­kynningu er haft eftir for­stjóra fé­lagsins að fé­lagið muni ná mark­miðum sínum fyrir skráningu á aðal­markað fljót­lega og undir­búningur þess hefjist þá þegar. Eignar­hlutur SKEL í VÍS hækkaði um 111 m. kr. á fyrri hluta ársins,“ segir Ás­geir Helgi í upp­gjörinu.

Hann telur jafn­framt að stefnu­mörkun fé­lagsins um um­breytingu úr rót­grónu tryggingar­fé­lagi í vaxta­fyrir­tæki á fjár­mála­markaði sem hófst fyrir um tveimur árum síðan sé góðþ

„Það er mikil­vægt fyrir ís­lensk fyrir­tæki á okkar litla markaði að hafa fjöl­breytta tekju­stofna. Frá ára­mótum hefur fé­lagið hafið eigna- og sjóða­stýringu í sér­stöku fé­lagi, SIV eigna­stýringu hf., og hlut­hafar sam­þykkt sam­runa við Fossa fjár­festingar­banka hf. með af­gerandi hætti. Þá er á­nægju­legt að sjá að við­snúningur hefur orðið í sölu hjá fé­laginu og að því virðist hafa tekist mjög vel til með að laða til sín góða stjórn­endur,“ segir Ás­geir Helgi.

„Salan markar á­kveðin tíma­mót í sögu fé­lagsins“

Einnig er greint frá því að ný­lega var gengið frá upp­gjöri vegna sölu á 48,3% eignar­hlut SKEL í Orku­fé­laginu, móður­fé­lagi P/F Magn í Fær­eyjum.

Eftir­standandi skuld­bindingar og eignir SKEL vegna Orku­fé­lagsins eru sölu­réttur Hólma ehf. sem til­kynnt var um 15. febrúar og selj­enda­lán sem veitt voru árið 2021 til kaup­enda að fjár­hæð um 460 m. kr.

„Salan markar á­kveðin tíma­mót í sögu fé­lagsins, sem hefur þá yfir­lýstu stefnu að draga úr vægi sölu jarð­efna­elds­neytis í eigna­safni fé­lagsins. Ætlun okkar er að halda stórum hluta sölu­and­virðis í fjár­festingum í Norður-Evrópu. Á fyrri árs­helmingi setti SKEL fast­eigna­fé­lagið Kletta­garða 8-10 ehf. í sölu­með­ferð hjá fyrir­tækja­ráð­gjöf Ís­lands­banka hf. Nokkur til­boð bárust í allar eignir fé­lagsins frá sér­hæfðum aðilum, flest á við­unandi verð­bili. Á­kveðið var að hefja við­ræður við einn til­boðs­gjafanna um kaup fé­lagsins í heild sinni, með það fyrir augum að ein­falda sam­stæðu SKEL. Við vonumst til að ljúka sölu fé­lagsins fyrir ára­mót.“

„Eigna­safn SKEL er að taka breytingum og nemur vægi ó­skráðra eigna nú 67,9% en var 69,4% um ára­mót. Gera má ráð fyrir að hlut­föll ó­skráðra eigna verði í kringum 50% til fram­tíðar, en það mun vitan­lega ráðast að ein­hverju marki af gengis­þróun skráðra eigna og endur­mati ó­skráðra eigna. Lausa­fjár­staða fé­lagsins er nokkuð rúm, en við munum þyngja vægi skráðra eigna og fast­eigna í safninu á komandi misserum. Þann 12. apríl sl. greiddi fé­lagið út arð sem sam­svaraði 0,31 kr. á úti­standandi hlut, eða 600 m. kr. SKEL til­kynnti um fram­kvæmd endur­kaupa­á­ætlunar að há­marks­fjár­hæð 250 m. kr. þann 12. júlí og hófust endur­kaup daginn eftir, endur­kaupum lýkur í síðasta lagi 31. desember nk. Í upp­hafi árs voru 1006 hlut­hafar í fé­laginu en við lok fyrri árs­helmings voru hlut­hafar 1044,“ segir Ás­geir að lokum.