Sláturfélag Suðurlands, SS, skilaði 549 milljóna króna hagnaði í fyrra samanborið við 233 milljóna hagnað árið 2021. Hagnaður SS hefur ekki verið meiri frá árinu 2016.

Í afkomutilkynningu SS, sem er skráð á First North-markaðinn, segir að betri markaðsaðstæður og aðgerðir sem gripið var til að auka tekjur samstæðunnar skýri bætta afkomu.

Rekstrartekjur SS námu 15,8 milljörðum króna árið 2022 og jukust um 21% frá fyrra ári. Rekstrargjöld SS námu 14,4 milljörðum og jukust um 18,5% á milli ára. Laun og launatengd gjöld SS námu nærri 4 milljörðum í fyrra en ársverk voru 437.

„Staðan á veitingamarkaði batnaði umtalsvert auk þess sem samstæðan styrkti stöðu sína á smásölumarkaði. Útflutningur jókst á lambakjöti auk þess sem markaðir fyrir ýmsar aukaafurðir styrktust. Sala á innflutningsvörum, matvælum og búrekstrarvörum gekk vel en samstæðan styrkti stöðu sína talsvert á þeim markaði,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi SS.

Stjórnin segir að margs konar aðgerðir séu í gangi með það að markmiði að rekstur samstæðunnar skili viðunandi arðsemi til lengri tíma. Þá reikni stjórnendur með að starfsemi félagsins muni ekki breytast verulega að umfangi á næstu árum.

Eignir SS voru bókfærðar á 13,4 milljarða króna í árslok 2022 og eigið fé var um 6,6 milljarðar.