Kínverski tæknirisinn Tencent Holdings greindi frá 6,66 milljarða dala hagnaði á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Hagnaðurinn samsvarar 82% aukningu milli ára og skýrist að miklu leyti vegna velgengni í tölvuleikjasölu.
Framlegð fyrirtækisins hækkaði einnig frá 47% í 53% og jukust tekjur þess einnig um 8%. Sala netauglýsinga jókst einnig um 19% og naut Tencent góðs af auknum tekjum frá lengri myndböndum.
Tencent Holdings, sem er staðsett í Shenzhen, var stofnað árið 1998. Fyrirtækið hefur verið virkur þátttakandi í kínverska tölvuleikjabransanum en árið 2011 stofnaði það snjallforritið WeChat sem hefur tekið yfir kínverska netmarkaðinn og er notað um allan heim.
Hlutabréf Tencent í Hong Kong hafa hækkað um tæp 30% á þessu ári.