Tesla hagnaðist um 0,41 milljarð dala á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, sem samsvarar um 51,3 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 1,39 milljörðum dala, eða um 173,8 milljörðum króna. Hagnaðurinn dróst því saman um 71% og hefur ekki verið minni í fimm ár.

Fyrirtækið átti erfitt með að standast samkeppni kínverska rafbílaframleiðenda og orðspor félagsins skaddaðist mjög vegna þátttöku Elon Musk í ríkisstjórn Trump forseta.

Hlutabréf Tesla hækkuðu um 4,6% fyrir birtingu ársfjórðungsuppgjörsins á þriðjudag, en stóðu í stað í viðskiptum eftir lokun markaða.

Rafbílaframleiðandinn greindi frá leiðréttum hagnaði á hvern hlut upp á 27 sent, sem er undir væntingum markaðsgreinenda sem höfðu gert ráð fyrir 41 senti.

Tesla sagði að tollastefna Bandaríkjastjórnar hafi sett álag á aðfangakeðjur og aukið kostnað fyrirtækisins.

Fyrirtækið benti á að tollastríð og „breytt pólitísk stemning“ gætu dregið úr eftirspurn eftir Teslum og því gæti þurft að endurskoða söluspá ársins. Tesla hafði áður spáð söluaukningu á þessu ári, eftir að hafa orðið fyrir samdrætti árið 2024.

Tekjur Tesla drógust saman á fyrsta ársfjórðungi vegna minni sölu, þar með talið tveggja stafa prósentulækkun í lykilmörkuðum eins og Bandaríkjunum, Kína og Þýskalandi.

Samkvæmt Tesla höfðu samdráttur í sölu og lægra vöruverð — meðal annars vegna rausnarlegra afsláttartilboða — neikvæð áhrif á bæði tekjur og hagnað. Fyrirtækið benti einnig á nokkurra vikna stöðvun framleiðslu í öllum fjórum verksmiðjum sínum, vegna undirbúnings fyrir nýútgáfu af Model Y, vinsælasta bíl þess, sem skýringu.

Aukin fjárfesting í gervigreind dró einnig úr hagnaði. Musk hefur sagt að sjálfkeyrandi bílar og önnur gervigreindartengd nýsköpun séu lykilatriði í framtíðaráætlunum Tesla.

Rétt er að taka fram að áður en Musk fór að tengjast beint stjórnmálum og veikja ímynd fyrirtækisins meðal neytenda, hafði eftirspurn eftir bílum Tesla farið dvínandi. Fyrirtækið hefur lengi haldið því fram að aðrar rekstrareiningar en bílaframleiðsla, eins og orkugeymsla og hugbúnaðaráskriftir, séu lykilatriði í framtíðarvexti þess.

Þrátt fyrir mikinn samdrátt í sölu og hagnaði í fjórðungnum, komu jákvæðar tölur fram í tengslum við orku- og hugbúnaðarrekstur Tesla, sem sýndu tveggja stafa prósentuvöxt.

Næsta stóra skref Tesla er kynning sjálfkeyrandi leigubíla (robotaxi), sem Musk hefur líkt við blöndu af Uber og Airbnb. Fyrirtækið sagði að stefnt væri að því að hefja rekstur slíkrar þjónustu í Austin, Texas, í júní.