Tiger á Íslandi hagnaðist um 16,2 milljónir króna á árinu 2024 samanborið við 22,4 milljónir árið áður.

„Afkoma ársins var 27% lægri en árið 2023 sem skýrist einkum af auknum kostnaði og áskorunum á markaði. Á hinn bóginn metur stjórnin að árið 2024 hafi verið ár ánægjulegrar afkomu og góðs árangurs í ljósi stefnumarkandi markmiða okkar,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins.

Vörusala Tiger dróst saman um 2,3% og nam 637 milljónum króna. Framlegð var um 417 milljónir króna. Félagið rekur verslanir undir merkjum Flying Tiger í Smáralind, Kringlunni, á Laugavegi, á Selfossi og Akureyri.

Rekstrarútgjöld jukust lítillega og námu 394 milljónum króna, þar af voru laun og tengd gjöld 224 milljónir. Ársverkum fækkaði úr 17 í 16 milli ára.

Eignir Tiger Íslands ehf. námu 300 milljónum króna í árslok 2024 og eigið fé var um 189 milljónir. Íslenska félagið tilheyrir dönsku Flying Tiger samstæðunni sem ber heitið Zebra A/S og er í eigu danska fjárfestingarfélagsins Treville.