Síminn hf. hefur birt uppgjör fyrir annan ársfjórðung en samkvæmt því styrkist afkoman verulega frá fyrra ári.
Hagnaður félagsins tvöfaldaðist á fjórðungnum og tekjur jukust umtalsvert, einkum vegna aukinna auglýsingatekna og áframhaldandi vaxtar í miðlunar- og fjártæknistarfsemi.
Heildartekjur samstæðunnar á sex mánuðum námu 14,4 milljörðum króna, sem er 6,9% aukning frá sama tímabili í fyrra.
Tekjur jukust mest í auglýsingamiðlun, sem nam 1,2 milljörðum króna og hækkaði um tæplega 460 milljónir milli ára, að hluta vegna kaupa á Billboard sem var tekið inn í samstæðuna árið 2024. Tekjur af sjónvarpsþjónustu, farsíma og gagnaflutningi héldu einnig áfram að vaxa.
Rekstrarhagnaður (EBIT) á fyrri helmingi ársins nam 1,6 milljörðum króna, leiðrétt fyrir 461 milljón króna sekt og bótum sem greiddar voru á fyrsta ársfjórðungi. Hagnaður eftir skatta var 844 milljónir króna, samanborið við 415 milljónir á sama tímabili árið áður.
Á öðrum fjórðungi námu tekjur 7,2 milljörðum króna og jukust um 4,7% frá fyrra ári. Tekjur af farsíma, gagnaflutningi og sjónvarpsþjónustu hækkuðu um 2,5% milli ára en tekjur af auglýsingamiðlun um nær 13%.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hækkaði um 11,5% og nam 1,9 milljörðum króna. EBITDA-hlutfallið var 26,7% á fjórðungnum, samanborið við 25,1% árið áður. Rekstrarhagnaður (EBIT) jókst um 46% í 931 milljón króna.
Hagnaður eftir skatta nam 537 milljónum króna á öðrum fjórðungi, sem er meira en tvöföldun frá 244 milljónum í fyrra. Hagnaður á hlut hækkaði úr 0,09 krónum í 0,22 krónur.
Síminn undirritaði á fjórðungnum samninga við HBO Max og Hayu, sem bætast við efnisveitur í Sjónvarpi Símans Premium.
Að sögn Maríu Bjarkar Einarsdóttur forstjóra jókst notkun efnisveitunnar um 20% milli júní og júlí eftir innkomu Hayu.
Í fjártæknistarfsemi jókst umsvif Símans Pay áfram, m.a. með vaxandi notkun fyrirtækjakortsins. Bókfært virði útlánasafns Símans Pay var 4,6 milljarðar í lok fjórðungsins og notendum þjónustunnar Noona fjölgaði um 26% milli ára.
Vaxtaberandi skuldir námu 19,1 milljarði króna í lok annars fjórðungs, samanborið við 17,2 milljarða í árslok 2024. Handbært fé lækkaði úr 835 milljónum í 744 milljónir króna.
Hreinar skuldir að teknu tilliti til útlána Símans Pay voru 13,7 milljarðar króna og hlutfall hreinna skulda af 12 mánaða EBITDA var 1,78.
Eiginfjárhlutfallið stóð í 40,3% í lok júní og eigið fé félagsins nam tæplega 17 milljörðum króna.
María Björk segir reksturinn sýna sterkan grunn og að félagið hafi haft góða stjórn á kostnaði, sem skýri aukna afkomu. Hún bendir á að félagið hafi einnig haldið áfram að skila virði til hluthafa í gegnum markviss endurkaup á fjórðungnum.
Hún segir horfurnar jákvæðar, bæði í grunnrekstri og með nýjum tekjustraumum.
„Horfur í rekstrinum eru almennt bjartar og þriðji ársfjórðungur fer vel af stað. Grunnreksturinn er sterkur og við höldum áfram að byggja nýja tekjustrauma með fjölbreyttri vöruþróun og nýsköpun á sviðum fjarskipta, miðlunar og fjártækni. Þá lítum við sem fyrr til ytri vaxtar, enda rík tækifæri fólgin í að nýta öfluga innviði Símans til sóknar á fleiri sviðum,“ segir María Björk.
Virkir notendur Noona voru 84 þúsund í lok júní, um 26% fleiri en á sama tíma í fyrra, auk þess sem söluaðilum heldur áfram að fjölga.
Vaxtatekjur útlána aukast mikið milli ára, en Síminn Pay tók yfir lánasafn Valitor í lok febrúar sl.
„Í takt við áherslur um aðgengi og þægindi neytenda, afhenti Síminn útsendingar enska boltans á dreifikerfi Sýnar þegar félagið hélt á sýningarréttinum undanfarin ár. Sýn er nú með réttinn, en á dögunum birti Fjarskiptastofa bráðabirgðaákvörðun þar sem staðfest er að Sýn beri að afhenda línulegar útsendingar sínar á kerfi Símans, en geti ekki einangrað þær við eigin forrit og myndlykla. Síminn mun því áfram selja og dreifa íþróttaefni Sýnar og opnu rásinni Sýn á kerfum sínum.“
Uppgjörið er það síðasta undir handleiðslu Óskars Haukssonar fjármálastjóra, sem lét af störfum í sumar eftir að hafa starfað hjá félaginu í 20 ár, þar af 14 ár sem fjármálastjóri.
„Að lokum má nefna að þetta uppgjör er það síðasta undir handleiðslu Óskars Haukssonar. Hann óskaði eftir að láta af störfum á dögunum eftir að hafa starfað hjá félaginu frá árinu 2005, þar af sem fjármálastjóri frá 2011. Fjármál Símans hafa þannig verið í traustum höndum Óskars í rúmlega fjórtán ár, en eins og fjárfestar þekkja hefur sá tími einkennst af ábyrgð og vel ígrunduðum ákvörðunum í rekstrinum samhliða vel heppnaðri umbreytingu félagsins. Ég vil þakka Óskari fyrir sitt framlag til félagsins og frábært samstarf síðustu misseri. Það verður missir af honum hjá Símanum, en við óskum honum öll góðs gengis á nýjum vettvangi.“