Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) hagnaðist um 3,1 milljón evra, eða sem nemur 469 milljónum króna, samanborið við 16,6 milljóna evra hagnað árið áður. Hagnaður félagsins dróst því saman um 81% milli ára.
Stjórn ÚR leggur til að allt að 1,5 milljónum evra, eða allt að 214 milljónum króna, verði greiddar í arð til hluthafa á árinu, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi. Félagið er í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims.
Í skýrslu stjórnar ÚR er minnkun á hagnaði frá fyrra ári að mestu leyti rakinn til minni hlutdeildar í hagnaði hlutdeildarfélagsins Brims, en hlutdeild í afkomu minnkaði úr 27,7 milljónum evra árið 2023 niður í 17,8 milljónir evra árið 2024. Minnkun hagnaðar Brim sé m.a. vegna engrar loðnuveiði. ÚR er stærsti hluthafi Brims með 44% hlut.
Tekjur ÚR af sölu afurða til útflutnings á árinu 2024 námu 89,3 milljónum evra í fyrra, eða um 13,3 milljörðum króna, og jukust um 9,4% frá fyrra ári. Rekstrartap var hjá ÚR upp á 3,2 milljónir evra í fyrra, eða um 475 milljónum króna, í fyrra.
„Á árinu var farið í skipulagsbreytingar á rekstri en viðvarandi taprekstur var á vinnsluhluta samstæðunnar í Reykjanesbæ. Samstæðan seldi því á árinu rekstrarfjármuni sína og vörubirgðir sem tengjast vinnslu félagsins í Reykjanesbæ. Samhliða sölunni voru langtímaskuldir þess rekstrar gerðar upp,“ segir í skýrslu stjórnar.
Meðalfjöldi ársverka á árinu 2024 nam 99 samanborið við 102 á árinu áður.
Eignir ÚR voru bókfærðar á 537 milljónir evra, eða um 77 milljarða króna, í árslok 2024. Eigið fé nam 285 milljónum evra eða um 41 milljarði króna. Eiginfjárhlutfall félagsins nam því 53%.