Vátryggingafélag Íslands, VÍS, skilaði 940 milljóna króna hagnaði árið 2022, samanborið við 7,7 milljarða króna hagnað árið 2021. Arðsemi eigin fjár var 5,2% en var 40,9% árið 2021.
Stjórn félagsins leggur til að félagið greiði út arð að fjárhæð 940 milljónir króna, sem samsvarar öllum hagnaði ársins eftir skatta, að því er segir í nýbirtum ársreikningi félagsins.
Hagnaður VÍS af vátryggingarekstri var 694 milljónir samanborið við 887 milljónir árið áður. Samsett hlutfall ársins var 99,2% í fyrra en var 97,1% á árinu 2021. VÍS gerir ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2023 verði á bilinu 96-98% en lagtímamarkmið félagsins er að hlutfallið fari ekki yfir 95%.
Iðgjöld VÍS jukust um 4,1% á milli ára, eða úr 23,0 milljörðum í 24,0 milljarða.
Óskráð hlutabréf skiluðu bestu afkomunni
Fjárfestingartekjur félagsins drógust saman úr 8,3 milljörðum í 1,5 milljarða á milli ára. Það skýrist einkum af því að gangvirðisbreytingar fjáreigna námu 853 milljónum í fyrra en 7,7 milljörðum árið áður.
Í skýrslu stjórnar segir að óskráð hlutabréf hafi skilað bestri afkomu eða um 1,5 milljörðum og var ávöxtun flokksins 24%. Skráð hlutabréf lækkuðu hins vegar um 10,5% eða um 1,1 milljarð.
Jákvæð afkoma var af skuldabréfaeign félagsins að fjárhæð 606 milljónir og kom að stærstum hluta frá óskráðum skuldabréfum.
„Þrátt fyrir krefjandi tíma á eignamörkuðunum er ánægjulegt að sjá að hagnaður ársins er þó 940 milljónir,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS.
„Árið í heild litaðist af erfiðu tíðarfari sem einkenndist af veðurofsa, kuldatíð og mörgum smærri tjónum ─ en þó varð ekkert stórtjón. VÍS greiddi viðskiptavinum sínum 16,8 milljarða í tjónabætur á síðasta ári ─ en samtals var fjöldi tjóna um 36.500.“
VÍS og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka tilkynntu í síðustu viku um að þeir hefðu ákveðið að hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum fjárfestingarbanka. Gert er ráð fyrir að hluthafar Fossa fjárfestingarbanka fái 260 milljón nýja hluti í VÍS fyrir hlutabréf sín, sem nemur 13,3% hlutafjár í VÍS eftir hlutafjáraukningu.
„Sameinað félag yrði öflugt fjármálafyrirtæki í sterkri stöðu til þess að nýta sér vaxtarmöguleika á markaði,“ segir í skýrslu stjórnar. „Með sameiningu félaganna yrðu tekin markviss skref í átt að framtíðarsýn VÍS, sem er að verða spennandi valkostur á íslenskum fjármálamarkaði, ásamt því að auka og efla tekjustoðir félagsins.“