Hagnaður þýska bílaframleiðandans Volkswagen Group á þriðja ársfjórðungi lækkaði um 64% milli ára, úr 4,34 milljörðum evra í 1,57 milljarða evra. Minni hagnað má ekki síst rekja til töluverðs samdráttar í sölu í Kína.

Framlegðarhlutfall Volkswagen bílaeiningarinnar á fyrstu níu mánuðum ársins var um 2% og fjarlægðist þar markmið sem forstjórinn Thomas Schäfer setti félaginu fyrir árið 2026 um 6,5% framlegðarhlutfall.

„Þetta undirstrikar aðkallandi þörf á verulegum kostnaðarhagræðingum og bættri skilvirkni,“ segir fjármálastjórinn Arno Antlitz í yfirlýsingu með uppgjörinu og benti jafnframt á krefjandi markaðsaðstæður á bílamarkaðnum.

Bílaframleiðandinn tilkynnti fulltrúum verkalýðsfélaga á dögunum um að hann ætli að loka að minnsta kosti þremur verksmiðjum í Þýskalandi og segja upp þúsundum starfsmönnum. Í umfjöllun Financial Times segir að þetta sé róttækasta endurskipulagning á rekstrinum í 87 ára sögu Volkswagen.

Uppgjörið í morgun birtist nokkrum klukkutímum fyrir launaviðræður við verkalýðsfélög sem hafa farið fram á 7% launahækkun fyrir starfsmenn félagsins. Stjórnendur VW hafa aftur á móti kallað eftir 10% lækkun launa hjá VW bílamerkinu.