Hagnaður Iceland Seafood International hf. (ISI) eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi nam 145 milljónum króna og hefur hann tífaldast frá sama tímabili árið áður, þegar hagnaðurinn var einungis 15 milljónir króna.
Hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi nam alls 333 milljónum króna, sem er 58 milljóna króna aukning frá fyrsta ársfjórðungi 2024.
Rekstrartekjur námu alls 17,3 milljörðum króna, sem er 4,8 prósenta aukning á milli ára, og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 781 milljón króna samanborið við 463 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.
Framlegð félagsins á fyrsta fjórðungi nam 1,8 milljörðum króna og hækkaði úr 1,5 milljörðum króna frá fyrra ári. Eiginfjárhlutfall félagsins í lok marsmánaðar mældist 29,9 prósent og hefur það hækkað úr 26,8 prósentum á einu ári.
Hagnaður á hvern hlut nam fimm krónum á tímabilinu samanborið við 0,4 krónur fyrir fyrsta ársfjórðung 2024.
Hlutabréf félagsins hafa hækkað um 2% í 203 milljón króna viðskiptum í morgun og stendur gengið í 5,25 krónum á hlut.
Heildareignir félagsins í lok fjórðungs námu 37 milljörðum króna og höfðu vaxið um 333 milljónir króna frá áramótum.
Rekstur félagsins í Suður-Evrópu gekk vel þrátt fyrir neikvæð áhrif af gengissveiflum í Argentínu sem leiddu til 87 milljóna króna gjaldmiðilstaps, en reglulegur hagnaður á svæðinu fyrir skatta nam engu að síður 333 milljónum króna og jókst um 29 milljónir króna frá sama tíma í fyrra.
Sala hjá dótturfélaginu Ahumados Domínguez dróst saman um sjö prósent en tap félagsins fyrir skatta lækkaði verulega og nam sjö milljónum króna samanborið við 101 milljón króna árið áður. Þetta er besti fyrsti ársfjórðungur félagsins frá því að Iceland Seafood eignaðist það.
Í Norður-Evrópu voru rekstrartekjur 2,1 milljarður króna og jukust þær um 11 prósent milli ára. Félagið á Írlandi skilaði ellefu milljóna króna hagnaði af reglulegri starfsemi samanborið við tap á fyrra ári, en tap af starfsemi dótturfélagsins Iceland Seafood Barraclough nam 18,5 milljónum króna og heildartap svæðisins var 7,5 milljónir króna, sem er sambærilegt við fyrra ár.
Sölu- og dreifingarhluti starfseminnar skilaði rekstrartekjum upp á 7,4 milljarða króna sem er 4,7 prósenta aukning frá sama fjórðungi í fyrra.
Góð sala og hátt verð á þorski voru þar lykilþættir í sterkri afkomu en sérstaklega hefur framboð á þorski verið takmarkað og verðið því í hæstu hæðum. Á hinn bóginn hefur verð á laxi verið stöðugt og undir væntingum, en framboð hefur verið nægjanlegt og lítill verðhækkunarþrýstingur á markaði.
Félagið heldur óbreyttri afkomuspá fyrir árið 2025 og áætlar hagnað fyrir skatta af reglulegri starfsemi á bilinu 1,1 til 1,4 milljarðar króna eða sem samsvarar 7,5 til 9,5 milljónum evra.
Gert er ráð fyrir áframhaldandi háu þorskverði út árið og stöðugu verði á laxi.
Stjórnendur ISI telja efnahagsumhverfið nú vera í meira jafnvægi en áður og að vaxtalækkanir síðustu missera hafi létt á rekstri víða innan samstæðunnar.