Félög í eigu Jóns og Sigurðar Gísla Pálmasona skiluðu samanlagt 7,7 milljarða króna hagnaði á síðasta rekstrarári sem lauk 31. ágúst 2024. Þar af nam hagnaður Fara ehf., félags Jóns, 3.882 milljónum og hagnaður Dexter Fjárfestinga ehf., félags Sigurðar Gísla, 3.831 milljón. Til samanburðar nam hagnaður félaganna 5,3 milljörðum á þar síðasta rekstrarári.
Afkoma af verðbréfaeign var jákvæð um tæplega 1,1 milljarð hjá hvoru félagi fyrir sig, samanborið við tæplega hálfan milljarð ári fyrr. Áhrif hlutdeildarfélaga voru sömuleiðis jákvæð um tæplega 2,5 milljarða en var jákvæð um tæplega 2,2 milljarða ári fyrr.
Eigið fé Fara nam 15,6 milljörðum króna í lok rekstrarársins en eigið fé Dexter Fjárfestinga nam 14,7 milljörðum. Stjórnir beggja félaga leggja til að 2 milljarðar króna verði greiddar í arð til hluthafa vegna rekstrarársins.
Félögin fóru með sitthvorn helmingshlutinn í Eignahaldsfélaginu Hofi, móðurfélagi IKEA á Íslandi og í Eystrasaltsríkjunum, í lok rekstrarársins en greint var frá því síðasta haust að bræðurnir hefðu samþykkt að selja rekstur Ikea í Eistlandi, Lettlandi og Litháen til Inter Ikea Group. Kaupverðið liggur ekki fyrir en gengið var frá sölunni í lok árs 2024 og á sama tíma var Jón Pálmason orðinn eini eigandi Ikea á Íslandi.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.