Methagnaður var á rekstri íslenska iðnfyrirtækisins Límtrés Vírnets á síðasta ári, en hagnaðurinn nam 862 milljónum króna.

Til samanburðar nam hagnaður félagsins 547 milljónum króna árið áður. Límtré Vírnet selur vörur fyrir íslenskan byggingariðnað og sérhæfir sig í framleiðslu á stál- og álklæðningum, límtré og yleiningum úr íslenskri steinull.

Velta samstæðunnar nam rúmum 5,5 milljörðum króna og jókst um 40% á milli ára. Hækkunina má rekja í fyrsta lagi til verðhækkana, en hrávöruverð tók miklum hækkunum á árinu, og í öðru lagi vegna aukinna umsvifa á íslenskum byggingamarkaði.

Á aðalfundi félagsins var samþykkt að greiða 400 milljónir króna í arð til hluthafa á árinu 2023 vegna síðasta árs.

Fjárfestingafélagið Stekkur á 80% hlut í félaginu, en eigandi Stekks er Kristinn Aðalsteinsson. Guðlaug Kristbjörg Kristinsdóttir er framkvæmdastjóri Stekks og stjórnarformaður Límtrés Vírnets. Þá er Stefán Árni Einarsson forstjóri félagsins.

Límtré Vírnet ehf.

2022 2021
Rekstrartekjur 5.556 3.972
Hagnaður 862 547
Launakostnaður 1.125 918
Eignir 3.570 3.715
Lykiltölur í milljónum króna.