Lands­virkjun hagnaðist um 12 milljarða króna af grunn­rekstri á fyrsta árs­fjórðungi ársins 2025, sam­kvæmt ný­birtum árs­hluta­reikningi félagsins. Þetta er 18% aukning frá sama tíma­bili í fyrra, þegar grunn­reksturinn skilaði rúm­lega 10 milljörðum króna.

Rekstrar­tekjur námu alls 162 milljónum Bandaríkja­dala, eða um 21,4 milljörðum króna, og jukust um 13% frá fyrra ári.

Hand­bært fé frá rekstri var jafn­framt sterkt og nam 13,7 milljörðum króna á tíma­bilinu, sem undir­strikar áfram­haldandi góða sjóðs­stöðu.

Þá lækkuðu vaxta­gjöld fyrir­tækisins um 0,5 milljarða milli ára og gengis­munur og af­leiðu­við­skipti höfðu jákvæð áhrif á heildarniður­stöðu.

Bætt vatns­staða og stöðug orku­vinnsla

Að sögn Harðar Arnar­sonar for­stjóra hefur stöðug­leiki í vatns­bú­skapnum skilað sér í traustri orku­vinnslu eftir erfiða stöðu síðla árs 2024.

„Eftir tíma­bundinn sam­drátt í raf­orkusölu vegna erfiðrar stöðu í vatns­bú­skapnum hefur raf­orku­vinnsla Lands­virkjunar náð fyrri stöðug­leika. Seinni hluta síðasta árs var miðlunar­staða í sögu­legu lág­marki, en eftir úr­komu­saman vetur á há­lendi Ís­lands er vatns­staða allra miðlunar­lóna fyrir­tækisins nú vel yfir sögu­legum meðaltölum,“ segir Hörður.

Skuldastaða heldur áfram að batna

Skuld­setning félagsins hefur haldið áfram að lækka og stendur nú í 1,4 sinnum EBITDA, eða rekstrar­hagnaði fyrir af­skriftir.

Þetta er ein lægsta skulda­hlut­falls­staða fyrir­tækisins frá hruninu og undir­strikar að Lands­virkjun er í sterkri stöðu fjár­hags­lega. Eigin­fjár­hlut­fall fyrir­tækisins var 67% í lok mars og hefur aldrei mælst hærra.

„Eigin­fjár­hlut­fall hefur aldrei verið hærra, eða 67% og því stendur Lands­virkjun styrkum fótum í upp­hafi þess fram­kvæmda­tíma­bils sem í hönd fer, með byggingu Vaðöldu­vers (vindorku­vers) og Hvamms­virkjunar (vatns­afls­virkjunar), auk stækkunar Sigöldustöðvar (vatns­afls­virkjunar). Nettó skuldir lækka áfram og eru nú 1,4-sinnum rekstrar­hagnaður fyrir af­skriftir.“

Lands­virkjun stefnir að veru­legum fjár­festingum á næstu árum, með byggingu vindorku­versins Vaðöldu, vatns­afls­virkjunar við Hvamm og stækkun Sigöldustöðvar.

Góð af­koma og sterk fjár­hags­staða skapar svigrúm til þessara fram­kvæmda án þess að ógna greiðslu­getu félagsins, sam­kvæmt upp­gjörinu.