Ölgerðin hagnaðist um 2.433 milljónir króna á síðasta fjárhagsári sem lauk þann 1. mars 2025. Árið áður nam hagnaður 3,3 milljörðum og lækkaði hann því um 26% milli ára. Hagnaðurinn dróst þó aðeins saman um 155 milljónir eða 5% ef tillit er tekið til einskiptisliða á fyrra ári og kostnaðar vegna markaðssetningar Collab erlendis upp á 319 milljónir króna.
Þetta kemur fram í uppgjöri Ölgerðarinnar fyrir fjárhagsárið 1. mars til 28. febrúar 2025 sem birt var í Kauphöllinni í dag.
Hvað fjórða ársfjórðung varðar jókst EBITDA um 14% og nam 1,2 milljörðum króna. Velta jókst um 1,1% milli ára og hagnaður eftir skatta nam 454 milljónum. Á umræddu tímabili var tilkynnt um kaup Ölgerðarinnar á Gæðabakstri, Kjarnavörum og Ankra.
„Ölgerðin býr yfir miklum möguleikum til bæði innri og ytri vaxtar og á þessum ársfjórðungi hefur náðst verulegur árangur á báðum þessum sviðum. Með kaupum á þremur öflugum fyrirtækjum, Gæðabakstri, Kjarnavörum og Ankra, höfum við fylgt eftir skýrri framtíðarsýn okkar um ytri vöxt og á sama tíma eflt vörumerkjauppbyggingu okkar, vöruþróun og nýsköpun,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Vörusala samstæðunnar jókst um 0,8% milli ára og nam 45.724 milljónum króna á fjárhagsárinu. EBITDA nam 5.040 milljónum króna og lækkaði um 8,4% milli ára en afkomuspá gerði ráð fyrir EBITDA upp á 4.900-5.300 millj.kr.
Á árinu var greiddur 1.419 milljóna arður til hluthafa en stjórn Ölgerðarinnar mun leggja til á aðalfundi að ekki verði greiddur út arður á árinu.
Í tilkynningu segir að lítilsháttar vöxtur hafi verið í sölu til stórmarkaða og HORECA en samdráttur t.d. til skyndibitastaða og bensínstöðva. Sala hjá Iceland Spring lækkaði um 2% milli ára en EBITDA dótturfélagsins hækkaði um 4%.
„Ölgerðin býr yfir afar sterkum, gamalgrónum vörumerkjum sem íslenskir neytendur kunna vel að meta og þar eru fjölmörg tækifæri til eflingar og frekari sóknar. Félagið heldur áfram vinnu við markaðssetningu á Collab á erlendum mörkuðum og er óhætt að segja að fyrstu viðbrögð lofi góðu um framhaldið.
Á sama tíma ríkir ákveðin óvissa um áhrif tolla á sölu íslenskra vara til Bandaríkjanna og við bíðum eftir að sjá hvort og þá hvaða áhrif mögulegir tollar hafa t.d. á innflutning á vatni á miklum samkeppnismarkaði. Við horfum samt bjartsýnum augum til framtíðar og hlökkum til að takast á við þau verkefni sem framundan eru,“ segir Andri Þór.
Afkomuspá stjórnenda fyrir fjárhagsárið 1. mars 2025 – 28. febrúar 2026 gerir ráð fyrir 4.800 – 5.200 millj. kr. EBITDA, án áhrifa af ytri vexti. Í afkomuspá er gert ráð fyrir að nettó áhrif til lækkunar á EBITDA verði 354 millj. kr. vegna útflutnings á Collab.
Í tilkynningu segir að útflutningur Collab gangi samkvæmt áætlun en ákveðið hafi verið að setja allan fókus á tvo markaði, Danmörku og norðurhluta Þýskalands. Áætlað er að nettó áhrif á EBITDA vegna sölu- og markaðsaðgerða erlendis verði neikvæð um 354 millj. kr. á fjárhagsárinu 2025.
Eigið fé Ölgerðarinnar var 16,4 milljarðar króna í lok tímabilsins og er eiginfjárhlutfall 49,3%. Nettó vaxtaberandi skuldir ásamt leiguskuldbindingu voru 7,4 milljarðar í lok tímabilsins og hækkuðu um 1.690 milljónir króna á árinu.
Fjárfestingar ársins námu samtals um 3.030 milljónum og þar af var 1.622 milljónir vegna fjárfestingar í nýju vöruhúsi að Köllunarklettsvegi 6. Útlit er fyrir að skuldsetning félagsins hækki um 7,5 milljarða í ár vegna fjárfestinga.