Hagnaður Citigroup nam 3,2 milljörðum Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi sem samsvarar um 438 milljörðum íslenskra króna. Um er að ræða um 10% aukningu á milli ára en tekjur samstæðunnar jukust einnig um 1 milljarð Bandaríkjadala og námu 20 milljörðum.
Afkoma af fjárfestingabankastarfsemi jókst um 60% á milli ára en bankinn hélt áfram að tapa peningum á kreditkortastarfsemi sinni.
Mun þetta vera annar ársfjórðungurinn í röð sem fjárfestingabankastarfsemi CitiGroup er aðaldrifkrafturinn í afkomu bankans en að mati Financial Times sýnir þetta að viðskipti, yfirtökur og skuldbréfaútgáfur séu að aukast vestanhafs.
Jane Fraser, forstjóri Citigroup, réð nýverið Vic Raghavan sem yfirmann fjárfestingabankastarfsemi Citi en hann starfaði árum saman hjá JPMorgan Chase.
Samanlagður hagnaður af lánastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi nam 1,6 milljörðum dala á fjórðungnum fyrir skatta.
Í september í fyrra ákvað Citigroup að ráðast í mikla endurskipulagningu og lofaði stjórn bankans að fækka starfsmönnum um 20 þúsund fyrir árslok 2026. Bankinn hefur nú þegar sagt upp um 11 þúsund starfsmönnum en í uppgjörinu segir að rekstrarábati af uppsögnunum muni ekki koma fram fyrr en síðar á árinu.