Hagnaður Citigroup nam 3,2 milljörðum Banda­ríkja­dala á öðrum árs­fjórðungi sem sam­svarar um 438 milljörðum ís­lenskra króna. Um er að ræða um 10% aukningu á milli ára en tekjur sam­stæðunnar jukust einnig um 1 milljarð Banda­ríkja­dala og námu 20 milljörðum.

Af­koma af fjár­festinga­banka­starf­semi jókst um 60% á milli ára en bankinn hélt á­fram að tapa peningum á kredit­korta­starf­semi sinni.

Mun þetta vera annar árs­fjórðungurinn í röð sem fjár­festinga­banka­starf­semi CitiGroup er aðal­drif­krafturinn í af­komu bankans en að mati Financial Times sýnir þetta að við­skipti, yfir­tökur og skuld­bréfa­út­gáfur séu að aukast vestan­hafs.

Jane Fraser, for­stjóri Citigroup, réð ný­verið Vic Rag­havan sem yfir­mann fjár­festinga­banka­starf­semi Citi en hann starfaði árum saman hjá JP­Morgan Chase.

Saman­lagður hagnaður af lána­starf­semi og fjár­festinga­banka­starf­semi nam 1,6 milljörðum dala á fjórðungnum fyrir skatta.

Í septem­ber í fyrra á­kvað Citigroup að ráðast í mikla endur­skipu­lagningu og lofaði stjórn bankans að fækka starfs­mönnum um 20 þúsund fyrir árs­lok 2026. Bankinn hefur nú þegar sagt upp um 11 þúsund starfs­mönnum en í upp­gjörinu segir að rekstrar­á­bati af upp­sögnunum muni ekki koma fram fyrr en síðar á árinu.