Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf., sem rekur þjónustu um bátaferðir um Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, hagnaðist um 497 milljónir króna á síðasta ári og velti 1,1 milljarði. Árið 2023 var metár í sögu félagsins, bæði þegar litið er til hagnaðar og veltu.
Hagnaður ríflega tvöfaldaðist frá fyrra ári en árið 2022 nam hagnaður 241 milljón. Árið 2021 hagnaðist félagið svo um 139 milljónir og hefur það því alls hagnast um 877 milljónir á undanförnum þremur árum.
Rekstur félagsins hefur gengið með miklum ágætum allt frá árinu 2002, en elsti ársreikningur félagsins sem hægt er að nálgast hjá fyrirtækjaskrá Skattsins er frá árinu 2003. Það hefur verið rekið með hagnaði á hverju ári undanfarna tvo áratugi, ef frá er talið árið 2020 er Covid-19 heimsfaraldurinn setti stórt strik í reikninginn. Til marks um áhrif faraldursins á rekstur félagsins hrundu rekstrartekjur úr 949 milljónum árið 2019 niður í 160 milljónir árið 2020. Fyrir vikið var félagið rekið með 142 milljóna tapi árið 2020 en árið áður nam hagnaður 342 milljónum.
Jökulsárlón ferðaþjónusta var þó fljót að ná vopnum sínum á ný og nemur samanlagður hagnaður áranna 2021, 2022 og 2023 eins og fyrr segir 877 milljónum.
Veltan nam 537 milljónum árið 2021, 910 milljónum árið 2022 og í fyrra velti félagið rúmlega 1,1 milljarði. Veltan hefur einu sinni áður rofið eins milljarðs króna múrinn en það var árið 2018, sem er metár í fjölda ferðamanna sem heimsækja landið.
Undanfarinn áratug nemur samanlagður hagnaður félagsins 2,7 milljörðum króna. Frá árinu 2016 hefur félagið velt 6,5 milljörðum króna.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.