Félög stofnenda og stjórnenda í PayAnalytics högnuðust um hundruð milljóna króna við sölu á íslenska nýsköpunarfyrirtækinu til svissneska fyrirtækisins Beqom í fyrra.

Félög stofnenda og stjórnenda í PayAnalytics högnuðust um hundruð milljóna króna við sölu á íslenska nýsköpunarfyrirtækinu til svissneska fyrirtækisins Beqom í fyrra.

Endanlegt söluverðmæti PayAnalytics er talið verða á bilinu 3,5-6 milljarðar króna en greiðsla kaupverðsins skiptist í reiðufé og að hluta í hlutabréf í Beqom.

PayAnalytics hófst sem rannsóknarverkefni hjá Margréti Vilborgu Bjarnadóttur, dósent við University of Maryland, og David Anderson, lektor við Villanova University í Pennsylvaníu, en þau eru bæði með doktorsgráðu í aðgerðagreiningu. Þau unnu frumkvöðlakeppnina Gulleggið árið 2016 með hugmyndinni að PayAnalytics og stofnuðu fyrirtækið formlega árið 2018.

PayAnalytics gefur út hugbúnað sem reiknar launabil kynjanna og annarra lýðfræðilegra hópa, líkt og þjóðerni, og kemur svo með tillögur um hvernig loka skuli launabilinu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Mannauðsstjórar og stjórnendur nota kerfið við launaákvarðanir. Kerfið styður félög einnig viðað koma í veg fyrir að launabilið aukist aftur.

Margrét hagnast um 680 milljónir

Margrét var stærsti hluthafi PayAnalytics með 28% hlut. Félag hennar, Jafnræði ehf., hagnaðist um 680 milljónir króna á síðasta ári. Eignir Jafnræðis, sem er skuldlaust, námu 810 milljónum í árslok 2023 en þar af var eignarhlutur í Beqom upp á 530 milljónir. Félag David sem átti 17% hlut hagnaðist um 423 milljónir við söluna.

Sigurjón Pálsson, framkvæmdastjóri PayAnalytics, átti 10,3% hlut í gegnum Þanka ehf. Félagið hagnaðist um tæplega 320 milljónir af sölunni.

Garðar Hauksson, tæknistjóri PayAnalytics, fór einnig með 10,3% hlut í gegnum félagið GH PA Holdings ehf. sem hefur ekki skilað ársreikningi fyrir síðasta ár.

Tharsis ehf., félag Guðrúnar Þorgeirsdóttur, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar PayAnalytics, hagnaðist um 146 milljónir í kjölfar sölunnar.

Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast ítarlegri útgáfu af fréttinni hér og annað efni í blaðinu hér.