Benchmark Genetics Iceland hagnaðist um 831 milljón króna á síðasta rekstrarári sem lauk 30. september 2024 en árið áður nam hagnaður 975 milljónum króna.

Tekjur drógust saman um 758 milljónir milli ára og námu 3,9 milljörðum. Stærsti hluti tekna kemur frá sölu laxahrogna og laxa- og hrognkelsaseiða. Kostnaðarverð seldra vara dróst saman um ríflega 150 milljónir og nam 2,2 milljörðum.

Bókfærðar eignir félagsins í lok rekstrarársins voru 10,8 milljarðar, samanborið við 9,9 milljarða árið áður, og eigið fé nam 9,2 milljörðum, samanborið við 8,4 milljarða árið áður.

Félag í eigu fjárfestingarfélagsins Novo Holdings, sem á ráðandi hlut í Novo Nordisk, keypti móðurfélag Benchmark Genetics í nóvember. Heildarvirði félagsins í viðskiptunum er allt að 260 milljónir punda, eða sem nemur um 45 milljörðum króna. Þar af eru um 30 milljónir punda háðar frammistöðutengdum mælikvörðum.

Stjórn félagsins telur að fjárhagslegar horfur til framleiðslu laxa og tengdra afurða séu góðar. Lagt er til að ekki verði greiddur út arður vegna síðasta rekstrarárs. Síðast var arður greiddur út úr félaginu, sem þá hét Stofnfiskur, árið 2013.

Benedikt Hálfdanarson er framkvæmdastjóri Benchmark Genetics Iceland.

Benchmark Genetics Iceland

2024 2023
Rekstrartekjur 3.926 4.684
Eignir 10.822 9.919
Eigið fé 9.239 8.391
Hagnaður 831 975
Lykiltölur í milljónum króna.