Sigurður Hannesson hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í tæp átta ár. Áður en hann kom til samtakanna hafði hann starfað á fjármálamarkaði um árabil, meðal annars sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku banka. Sigurður, sem er stærðfræðingur að mennt og með doktorspróf frá Oxford háskóla, var formaður sérfræðingahóps um Leiðréttinguna árið 2013 og varaformaður framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta og kynnti áætlun stjórnvalda um losun hafta árið 2015.

Stóra sviðið

Ísland á stóra sviðinu er yfirskrift Iðnþings að þessu sinni.

„Þetta er vísun í það að við byggjum okkar lífskjör á því að skapa verðmæti og flytja þau út,“ segir Sigurður. „Það kallar á greiðan markaðsaðgang, samskipti við ólík ríki og á hagsmunagæslu, ekki bara í atvinnulífinu heldur líka hagsmunagæslu stjórnvalda til þess að við njótum sem bestra viðskiptakjara og höfum aðgang að þeim mörkuðum sem skipta okkur máli."

„Það eru að verða miklar breytingar í heiminum núna, í okkar ytra umhverfi. Það sem snýr beint að okkur í þeim efnum er yfirvofandi tollastríð, þó við eigum vissulega eftir að sjá hvernig það þróast. Annað er gervigreindarkapphlaupið, sem getur ráðið úrslitum um það hvernig einstaka ríkjum vegnar í framtíðinni. Það mun skilja á milli þeirra sem taka þátt í gervigreindarkapphlaupinu og hinna sem skila auðu.“

Sigurður segir að með yfirskrift þingsins sé líka verið að vísa í viðnámsþrótt samfélagsins og hagkerfisins.

„Hvernig erum við sem samfélag tilbúin að takast á við fjölbreyttar ógnir og áskoranir, sem koma upp. Hvernig við getum styrkt stöðu okkar þannig að við séum betur í stakk búinn til að mæta áföllum. Gott dæmi um þetta er hvernig við brugðumst við eldsumbrotunum á Reykjanesi, þar sem reistir voru varnargarðar til að vernda mikilvæga innviði. Þetta snýr líka að utanaðkomandi ógnum. Sem betur fer höfum ekki séð mikið af þeim hér en við höfum svo sannarlega séð þær raungerast hjá nágrannaríkjunum.“

Breytt heimsmynd

Það hafa orðið miklar vendingar í alþjóðamálum undanfarið og heimsmyndin virðist vera að breytast.

„Það eru miklir umbrotatímar og það hriktir í þeim stoðum sem við höfum þekkt um langt skeið. Fyrir okkur skiptir aðgangur að mörkuðum mjög miklu máli en öryggis- og varnarmál eru líka komin mjög ofarlega á blað. Nú reynir á hagsmunagæslu, sem stjórnvöld munu bera á herðum sínum en atvinnulífið þarf líka að beita sér þar sem það er mögulegt, tala máli Íslands og efla tengsl. Við þurfum bæði að horfa til austurs og vesturs í þeim efnum. Þó Evrópa sé okkar langmikilvægasti markaður þá eru Bandaríkin vaxandi markaður og þá sérstaklega fyrir íslenskar vörur. Við flytjum meira út af lækningavörum og -tækjum til Bandaríkjanna heldur en þorski. Hagsmunirnir eru allt aðrir en áður.

Í öryggis- og varnarmálum mun reyna á samstarf stjórnvalda og atvinnulífs. Atvinnulífið kemur að uppbyggingu innviða og einstök fyrirtæki reka ýmsa þætti þeirra eins og fjarskiptakerfin. Það þarf að efla samstarf stjórnvalda og atvinnulífs þegar kemur að því að efla viðnámsþróttinn. Við þurfum að vera betur í stakk búinn að mæta þeim ólíku áskorunum sem upp kunna að koma. Þetta eru viðfangsefnin núna, hagsmunagæslan út á við og síðan að taka höndum saman um að efla okkar áfallaþol.“

Heimsmeistarakeppni í lífskjörum

Að sögn Sigurður er samkeppnishæfni einhvers konar heimsmeistarakeppni þjóða í lífskjörum.

„Samkeppnishæfni snýr að því hvernig skilyrði til rekstrar og verðmætasköpunar eru,“ segir hann. „Sumu höfum við ekki stjórn á en í öðru þarf hagsmunagæslu á erlendum vettvangi. Stór hluti af samkeppnishæfninni er samt í okkar höndum og á ég þá við umgjörðina sem stjórnvöld setja, regluverk og annað slíkt. Hvað þetta varðar þá geta stjórnvöld sannarlega tekið til hendinni og rutt hindrunum úr vegi til þess að leysa úr læðingi krafta sem leitt geta til meiri framleiðslu, meiri verðmætasköpunar og aukins útflutnings. Allt þetta styður við bætt lífskjör í landinu.

Stundum kostar það hið opinbera fjármuni en það getur líka leitt til sparnaðar. Núna er Evrópusambandið að fara af stað í að efla samkeppnishæfni álfunnar með því að einfalda íþyngjandi regluverk og veitir ekki af. Fyrir Evrópuþinginu liggur bandormur þar sem markmiðið er að einfalda reglur og draga úr kröfum. Þetta mun á endanum skila sér hingað en þetta skiptir allt máli.“

Íþyngjandi kröfur

Sigurður segir að íþyngjandi kröfur, sem kannski skili litlu eða engu þegar upp sé staðið, kosti fyrirtæki stórfé, sem og hið opinbera.

„Fyrirtæki þurfa að standa skil á gífurlegu magni af gögnum og upplýsingum til stofnana og það er fjöldi fólks sem hefur atvinnu af því að útbúaþessi gögn, rýna þau og passa að þeim sé skilað á réttum tíma og svo framvegis. Að sami skapi séu fjöldi opinberra starfsmanna viðtakendur gagnanna, þarna er því hagræðingartækifæri í ríkisrekstrinum.“

Nánar er rætt við Sigurð í sérblaðinu Iðnþing 2025. Áskrifendur geta lesið í viðtalið í heild hér.