þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að verðbólga verði 3,8% að meðaltali í ár. Á næsta ári er gert ráð fyrir 3,2% verðbólgu og árið 2027 er gert ráð fyrir að verðbólga nálgist verðbólgumarkmið og verði 2,6%.

Hagstofan færði verðbólguspá sína fyrir yfirstandandi ár og árið 2026 frá fyrri spá sinni sem birt var í mars síðastliðnum. Til samanburðar gerði stofnunin þá ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 3,5% í ár og 2,7% árið 2026.

Þá gerir ný þjóðhagsspá ráð fyrri að hagvöxtur verði 2,2% í ár , 2,5% árið 2026 og 2,8% árið 2027. Til samanburðar gerði marsspáin ráð fyrir 1,8% hagvexti í ár, 2,7% hagvexti árið 2026 og 2,8% hagvexti árið 2027.

Verðbólga mældist 4,2% í júnímánuði og jókst um 0,4 prósentustig frá fyrri mánuði. Verðbólgumælingin var talsvert yfir spám greiningardeilda bankanna. Óvíst er hvort stýrivextir lækki meira í ár en peningastefnunefnd Seðlabankans hefur gefið það út að vextir verði ekki lækkaðir nema ef verðbólga hjaðni áfram.

„Horfur eru á að verðbólgan hjaðni á spátímanum,“ segir í þjóðhagsspá Hagstofunnar. „Gengisstyrking krónunnar, aðhaldssöm peningastefna og fyrirsjáanleiki langtímakjarasamninga styður við hjöðnun. Á móti vegur að enn er þróttur í hagkerfinu og óvissa um verðbólguhorfur hefur aukist vegna alþjóðadeilna um tolla og átaka í Mið-Austurlöndum.“

Hagstofan segir að samsetning verðbólgunnar hafi breyst að undanförnu. Hækkun á húsnæðislið neysluvísitölunnar hafi verið helsta orsök verðbólgu síðustu ár og sé enn, þó heldur hafi dregið úr hækkuninni síðustu mánuði. Á öðrum ársfjórðungi hækkaði húsnæði um 7,5% frá fyrra ári sem er jafnframt minnsta árshækkun frá árinu 2021.

Hlutur innlendrar vöru í breytingu verðbólgu hafi aukist og t.d. hækkuðu búvörur um 6,9% á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 4,4% hækkun á þeim fyrsta og innlendar vörur án búvöru og grænmetis hækkuðu um 4,8% á sama tíma.

Verðhækkun á annarri þjónustu hafi aukist og var verðhækkunin á öðrum ársfjórðungi um 3,8%. Opinber þjónusta hækkaði um 3,2% frá fyrra ári en hækkunin í fyrra var um 7,8%.

„Innfluttar vörur hafa haldið aftur af hækkun neysluverðsvísitölunnar undanfarin misseri og var ársbreyting lægst 1% í fjórða ársfjórðungi 2024 en á öðrum ársfjórðungi hækkaði hún um 1,2% frá fyrra ári. Lága ársbreytingu á innfluttum vörum má m.a. rekja til verðþróunar í viðskiptalöndum, lækkunar á olíuverði og styrkingar á gengi krónunnar.“