Knattspyrnufélögin tólf sem léku í Bestu deild karla síðasta sumar voru rekin með samtals 518 milljóna króna hagnaði á síðasta ári.

Til samanburðar voru liðin sem léku í Bestu deild karla árið 2023 alls rekin með 29 milljóna hagnaði það árið. Samanlagðar tekjur félaganna námu rúmum 5,8 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um meira en milljarð á milli ára.

Þetta kemur fram í ársreikningum félaganna fyrir árið 2024.

Í flestum tilfellum ná ársreikningar knattspyrnudeildanna yfir meistaraflokka sem og yngri flokka starfið bæði karla- og kvennamegin. Þess ber þó að geta að í ársreikningi Knattspyrnudeildar Fram kemur fram að reikningurinn nái eingöngu yfir meistaraflokka og 1. flokk, sem sagt ekki yngri flokka starfið.

Á gröfunum sem fylgja greininni er farið yfir afkomu, tekjur og launahlutfall liðanna sem léku í Bestu deildinni árið 2024.

Til samanburðar eru rekstrarniðurstöður sömu liða frá árinu áður. Því ber að halda til haga að Vestri og ÍA komu upp úr Lengjudeildinni og eru niðurstöður félaganna frá árinu 2023 þegar þau léku í næstefstu deild. ÍBV og Keflavík léku í þeirra stað í efstu deild árið 2023.

Launakostnaður er sá kostnaðarliður sem vegur langþyngst hjá knattspyrnuliðunum tólf. Þannig nam meðallaunakostnaður liðanna sem hlutfall af tekjum um 57% á síðasta ári, en árið áður var meðaltalið 63% þegar horft er til þeirra liða sem léku í deildinni það árið.

Stöðugur rekstur Valsmanna

Níu af tólf liðum sem léku í Bestu deild karla í fyrra skiluðu hagnaði á síðasta ári, sem er mikill viðsnúningur frá árinu áður þegar átta af tólf liðum skiluðu tapi á tímabilinu. Valur er eina liðið sem lék í deildinni bæði árin og skilaði hagnaði bæði árin.

Félagið hagnaðist um samanlagt 57 milljónir yfir tímabilin 2023-2024, þar af nam hagnaðurinn 25 milljónum í fyrra. Tekjur Valsmanna hækkuðu um rúmar 50 milljónir milli ára. Þar af nærri þrefölduðust tekjur vegna miðasölu á milli ára, úr 11,7 milljónum árið 2023 í 26,8 milljónir.

Gylfi Sigurðsson skrifaði undir hjá Val fyrir síðasta tímabil eftir tveggja ára fjarveru frá boltanum, sem hafði án efa mikil áhrif á auknar miðasölutekjur.

Eins og kom fram í viðtali Viðskiptablaðsins við Styrmi Þór Bragason fyrir um ári síðan, sem hafði þá nýverið tekið við stöðu framkvæmdastjóra Vals, hafði félagið selt jafn mikið af
ársmiðum í byrjun apríl í fyrra og það hafði selt samanlagt á síðustu sjö tímabilum þar á undan.

Valur hefur notið góðs af uppbyggingu íbúða við félagssvæði sitt að Hlíðarenda en félög tengd Val, sem hafa aflað sér góðra tekna með sölu íbúða á svæðinu, hafa veitt íþróttafélaginu styrki. Þá nam hagnaður Vals af sölu leikmanna 37,5 milljónum króna á árinu 2024.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.