Hagvöxtur á Íslandi, þ.e. breyting á landsframleiðslu á föstu verðlagi, nam 6,4% árið 2022 samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga Hagstofunnar. Áætlað er að nafnvirði vergrar landsframleiðslu hafi verið 3.766 milljarðar króna. Miðað við áætlaðan mannfjölda mælist hagvöxtur á mann 3,7%.
Einkaneysla jókst um 8,6% að raunvirði á milli ára og er hún megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári að því er segir í tilkynningu Hagstofunnar. Fjármunamyndun og útflutningur skila einnig jákvæðu framlagi.
Þjóðarútgjöld, þ.e. samtala neyslu, fjármunamyndunar og birgðabreytinga, jukust um 6,4% að raungildi samanborið við 6,3% aukningu á milli 2020 og 2021.
„Vöxtur innflutnings umfram útflutning skilar neikvæðu framlagi til hagvaxtar en innflutningur bæði á vöru og þjónustu hefur aukist mikið á síðustu misserum.“
Hagvöxtur 3,1% á fjórða ársfjórðungi
Á fjórða ársfjórðungi hægði á vexti hagkerfisins og mældist aukning landsframleiðslunnar 3,1% miðað við sama ársfjórðung fyrra árs. Árstíðaleiðrétt breyting landsframleiðslunnar á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs mælist 2,2% að raungildi.