Hávaxtarumhverfið í Bandaríkjunum olli smávægilegri bankakrísu meðal svæðisbundinna banka í vor en síðan þá hefur verið rólegt um að litast meðal meðalstórra bandarískra banka.
Hlutabréf í bönkunum hafa hins vegar verið í mikilli lægð á árinu og hefur KBW Nasdaq bankavísitalan lækkað um 6,6% síðan í mars þegar eftirlitsaðilar tóku yfir Silicon Valley Bank.
Hlutabréf í KeyCorp hafa lækkað um 9,6% á tímabilinu, hlutabréf Comerica hafa lækkað um 5,1% og hlutabréf Truis Financial hafa lækkað um 15%. Á sama tíma hefur S&P500 vísitalan hækkað um 12%.
Innistæður í bönkunum hafa að mestu leyti haldist stöðugar og ótti fjárfesta um yfirvofandi gjaldþrot að mestu liðið hjá. Hins vegar hafa háir vextir höggvið í hagnað bankanna á sama tíma og matsfyrirtæki hafa lækkað lánshæfismat á fjölmörgum svæðisbundnum bönkum..
Samkvæmt The Wall Street Journal er óvissa á bankamarkaði sem veldur því að fjárfestar vestanhafs eru lítt hrifnir af hlutabréfum í minni bönkum um þessar mundir.