Hákon Stefánsson, stjórnarformaður Sýnar, keypti í gær hlutabréf í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu fyrir 11,3 milljónir króna í gegnum félagið sitt Íslex ehf., samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Hann keypti 300 þúsund hluti í Sýn á genginu 37,8 krónur á hlut.
Þetta eru fjórðu kaup Hákonar í Sýn frá því í mars 2023 en hann stækkaði síðast hlut sinn í félaginu fyrir tæplega 100 milljónir króna í nóvember síðastliðnum.
Hákon var kjörinn í stjórn Sýnar á hluthafafundi í október 2022 en hann er framkvæmdastjóri og meðeigandi InfoCapital, fjárfestingarfélags í meirihlutaeigu Reynis Grétarssonar.
InfoCapital er stærsti hluthafi Gavia, sem er stærsti hluthafi Sýnar en í Kauphallartilkynningu segir Hákon eigi í gegnum þessi tvö félög 53.147.128 hluti.
Íslex, InfoCapital og Gavia Invest ráða samtals yfir um 57 milljónum hluta, eða um 23% eignarhlut í Sýn.
Hlutabréfaverð Sýnar hefur lækkað um tæplega 21% síðastliðinn mánuð eftir að félagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun í lok apríl.
Fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið birti skömmu síðar árshlutauppgjör sem sýndi tap á fyrsta fjórðungi.