Hákon Stefánsson, stjórnarformaður Sýnar, sagði að stjórnarstarf hans hjá fjölmiðla- og fjarskiptafélaginu undanfarin tvö ár hafi að sumu leyti verið erfiðara og „einhver myndi segja leiðinlegra jafnvel“ en hann hafi gert ráð fyrir.
„En á sama tíma er akkúrat góði tíminn að byrja núna. Núna er maður að sjá til lands og ég segi það, að mér finnst alveg magnað á þessu ári hvað hefur áunnist hjá okkur í að gera gott fyrirtæki betra. Það er eiginlega alveg ótrúlegt,“ sagði Hákon í opnunarávarpi á markaðsdegi Sýnar á fimmtudaginn síðasta.
Hákon er framkvæmdastjóri og meðeigandi fjárfestingarfélagsins InfoCapital, sem á yfir 80% hlut í Gavia Invest sem varð stærsti hluthafi Sýnar sumarið 2022. Hákon tók sæti í stjórn Sýnar í október 2022 og tók við stjórnarformennsku félagsins á aðalfundi þess í vor.
„Þegar maður kom að þessu fyrirtæki fyrst fyrir tveimur árum, þá horfði maður öðruvísi á það utan frá og taldi að það væru ákveðin tækifæri innandyra,“ sagði Hákon. „Svo kemur maður inn í fyrirtækið og kynnist þessu betur, þá áttar maður sig á því að það eru vissulega tækifæri en þau eru allt önnur en maður kannski taldi í upphafi. Það er svo sem ekkert óalgengt. […]
Ég segi að, þó að vissulega hafi það verið þannig að maður hafi horft öðruvísi á fyrirtækið í upphafi, þá er ég ótrúlega ánægður með félagið eins og það er í dag og þeirri vegferð sem við erum á. Félagið er betra í dag en það var fyrir einu ári, ég get alveg sagt ykkur það.“
Andvarpað nokkrum sinnum en ekki á síðustu tólf mánuðum
Hákon bætti þó við að fólk hafi ólíka sýn á hlutina. Sumir hafi haft mjög gaman að því að tala um félagið og jafnvel tala það niður.
„Það var hérna í upphafi glæra, sem átti að vera: Hákon Stefánsson og ávarp stjórnarformanns. Ég hugsaði „ávarp“, fara ekki gárungarnir á Viðskiptablaðinu eða einhvers staðar annars staðar að tala um „andvarp“ Hákonar Stefánssonar. Ég hugsaði bara, er það ekki málið?
Ég get alveg líka sagt það að maður hefur alveg andvarpað nokkrum sinnum en það hefur ekki verið síðustu tólf mánuði. Við erum á góðri leið.“
Á föstudaginn, degi eftir markaðsdaginn, stækkaði Gavia hlut sinn í Sýn fyrir 60 milljónir króna. Gavia á eftir kaupin 18,2% eignarhlut í Sýn.
Auk þess á InfoCapital 4% beinan hlut í Sýn og Íslex, félag Hákonar Stefánssonar, á 1,6% hlut í Sýn.
Opnunarávarp Hákonar er frá 4:05 – 8:10: