Hákon Stefánsson, stjórnarmaður í Sýn, keypti á föstudaginn 2,3 milljónir hluta, eða um 0,9% eignarhlut í fjölmiðla- og fjarskiptafélaginu fyrir tæplega 100 milljónir króna. Gengið í viðskiptunum var 43,38 krónur á hlut. Greint er frá viðskiptunum í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Kaup Hákonar fóru í gegnum félagið hans Íslex ehf. Hákon hafði fyrr í ár keypt samtals 1,4 milljónir hluta í tveimur lotum í mars og í maí.

Íslex á nú 3,7 milljónir hluta í Sýn, eða um 1,5% eignarhlut, sem eru um 160 milljónir króna að markaðsvirði.

Hákon var kjörinn í stjórn Sýnar á hluthafafundi í október 2022. Hann er framkvæmdastjóri og meðeigandi InfoCapital, fjárfestingarfélags í meirihlutaeigu Reynis Grétarssonar. InfoCapital er stærsti hluthafi Gavia, sem er stærsti hluthafi Sýnar. Hákon er jafnframt stjórnarformaður Gavia.

Íslex, InfoCapital og Gavia Invest ráða samtals yfir 56,85 milljónir hluta, eða um 22,6% eignarhlut í Sýn.

Sýn birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung á miðvikudaginn síðasta. Félagið hagnaðist um 321 milljón króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi samanborið við 191 milljón á sama tíma í fyrra. Velta félagsins jókst um 4,2% milli ára og nam 5.730 milljónum króna á fjórðungnum.

Sýn tilkynnti samhliða um breytt skipurit á fjölmiðlarekstri sínum sem hefur verið skipt upp í tvær rekstrareiningar.