Hákon Stefánsson, stjórnarformaður Sýnar, hefur birt aðsenda grein á Vísi þar sem hann segir stjórn fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins standa einhuga að baki stjórnendum og starfsfólki félagsins í stefnumótunarferli félagsins.
Birting greinarinnar fylgir í kjölfar starfsloka fjögurra starfsmanna á fjölmiðlasviði félagsins á síðustu vikum.
Fjölmiðlar greindu frá því í gær að Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir, yfirmaður auglýsingamála Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, væri hætt störfum hjá Sýn. Þar áður hafði verið tilkynnt um starfslok Evu Georgs Ásudóttur sem sjónvarpsstjóra Stöðvar 2, Þóru Bjargar Clausen sem dagskrárstjóri Stöðvar 2, og Sigrúnar Óskar Kristjánsdóttur fjölmiðlakonu.
„Breytingar eru órjúfanlegur hluti af vegferðinni“
Hákon segir í greininni að stjórn og stjórnendur Sýnar hafi með markvissum breytingum á rekstri félagsins stefnt að því að styrkja félagið sem leiðandi afl á markaði og hámarka langtímavirði þess.
Sýn hafi undanfarið unnið að víðtækri stefnumótun félagsins með þátttöku fjölda starfsmanna. Á sama tíma hafi stjórn Sýnar tekið ákvörðun um að fleiri einingar verði ekki seldar út úr rekstrinum „heldur þvert á móti styrktar“.
Hákon segir stefnuna byggja á metnaði og skýrri sýn starfsfólks Sýnar og hafi það markmið að efla félagið enn frekar og tryggja stöðugan og sjálfbæran rekstur.
„Breytingar eru órjúfanlegur hluti af vegferðinni og kalla á bæði skýrleika og úthald. Í þessu ferli hefur verið lögð áhersla á vandaða framkvæmd og opin samskipti þar sem upplýsingar eru veittar reglulega til að tryggja traust og samstöðu innan fyrirtækisins. Stjórn Sýnar stendur einhuga að baki stjórnendum og starfsfólki í þessari vinnu,“ segir Hákon.
„Með sameiginlegu átaki er stefnan skýr: að styrkja stöðu Sýnar sem forystuafls á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði og skapa traustan grunn fyrir framtíðina.“
Hákon er framkvæmdastjóri og meðeigandi fjárfestingarfélagsins InfoCapital, sem á yfir 80% hlut í Gavia Invest sem varð stærsti hluthafi Sýnar sumarið 2022. Hákon tók sæti í stjórn Sýnar í október 2022 og tók við stjórnarformennsku félagsins á aðalfundi þess í vor.
Á markaðsdegi Sýnar í nóvember sl. sagði Hákon að eftir krefjandi tvö ár hjá Sýn væri nú farið að sjá til lands.
Á sama markaðsdegi sagði Herdís Dröfn Fjeldsted, sem tók við sem forstjóri Sýnar í janúar 2024, að það hefði komið sér á óvart hvað hún upplifði Sýn eins og mörg fyrirtæki. Hún sagði stjórnendur Sýnar ætla að leggja áherslu á að klára sameiningar innan samstæðunnar.
InfoCapital, aðaleigandi Gavia, er í 97% eigu Reynis Grétarssonar, 1% eigu Hákonar, 1% eigu Ragnars Dyer og 1% eigu Bjarna Gauks Sigurðssonar.